Fyrrverandi yfirmaður helstu mafíu New York borgar er látinn í fangelsi. Carmine Persico var búinn að afplána 33 ár af 139 ára dómi.
Carmine Persico, sem var 85 ára gamall þegar hann lést, lætur eftir sig eiginkonu, tvö börn og 15 barnabörn.
Í frétt BBC kemur fram að Persico hafi gengið undir viðurnefninu Snákurinn og hann hafi alltaf hatað þá nafngift. Talið er að hann hafi stýrt glæpagenginu frá fangelsinu sem þýðir að fáir hafi stýrt mafíuhring jafn lengi og hann.
Persico fæddist í Brooklyn árið 1933 og hann var enn á unglingsaldri þegar hann var fyrst handtekinn fyrir morð. Persico hætti námi þegar hann var í menntaskóla og stýrði götugengi í New York. Þegar hann var 17 ára var hann handtekinn fyrir að hafa barið ungan mann til bana en var aldrei ákærður fyrir morðið.
Hann gekk til liðs við Colombo-mafíuna sem var ein af fimm fjölskyldunum í ítölsk/amerísku mafíunni í New York á þessum tíma. Hann varð leiðtogi glæpasamtakanna á átunda áratugnum.
Það var Rudy Giuliani, sem síðar varð borgarstjóri í New York og er nú lögmaður forseta Bandaríkjanna, sem átti heiðurinn að því að Persico var loksins dæmdur í fangelsi árið 1986.
Giuliani var saksóknari á Manhattan á þeim tíma. Hann kom einnig sjö öðrum háttsettum einstaklingum innan mafíunnar á bak við lás á slá á þessum tíma.
Talið er að Persico hafi staðið á bak við rúmlega tuttugu morð, annað hvort framið þau sjálfur eða látið aðra drepa fyrir sig. Til að mynda kom lögreglumaður að Persico og öðrum manni þar sem þeir voru að kyrkja mann á bar árið 1961. Morðingjarnir voru aldrei ákærðir þar sem enginn var til þess að bera vitni. Líkt og yfirleitt var ef Persico kom nálægt glæpnum.
Meðal glæpa sem Persico er talinn hafa framið eru okurlán, árásir, rán, nauðgunartilraunir, ólögleg vopnaeign og fleira.