Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, sætir nú gagnrýni þar í landi vegna dauða sonar Shamimu Begum, breskrar konu sem flúði til Sýrlands og gekk til liðs við Ríki íslams er hún var 15 ára. BBC greinir frá.
Staðfest var í gær að sonur Begum, sem undanfarið hefur dvalið í flóttamannabúðum í Sýrlandi þar sem drengurinn fæddist, væri látinn. Banamein hans er talið vera lungnabólga og var hann innan við þriggja vikna gamall er hann lést. Begum hafði biðlað til breskra yfirvalda um að fá að snúa heim. Javid lét þess í stað svipta hana ríkisborgararéttinum.
Fjölskylda Begum í Bretlandi hafði óskað eftir því að bresk stjórnvöld leyfðu drengnum, sem fæddist í flóttamannabúðunum, að koma til Bretlands. Vinur fjölskyldunnar í Bretlandi, Dal Babu, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn í London, segir stjórnvöld hafa brugðist í að tryggja velferð barnsins. „Þetta er lát bresks ríkisborgara sem mátti vel koma í veg fyrir,“ sagði Babu. Þá hefur Verkamannaflokkurinn sagt andlát drengsins afleiðingu „kaldranalegrar og ómannúðlegrar“ ákvörðunar.
Talsmaður bresku stjórnarinnar segir dauða hvaða barns sem er hins vegar vera „hörmulegan“.
Bresk stjórnvöld hefðu ítrekað varað við ferðum til Sýrlands og muni „halda áfram að gera allt sem á þeirra valdi er til að hindra fólk í að dragast inn í hryðjuverkastarfsemi og ferðast til átakasvæða.“
Begum fór með tveimur skólasystrum sínum til Sýrlands árið 2015 og fann blaðamaður frá breska dagblaðinu Times hana nýlega í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Þá hafði hún flúið yfirráðasvæði Ríkis íslams í landinu, en umsátursástand hafði þá ríkt um síminnkandi kalífadæmið um langt skeið.
Skortur Begum á iðrun í viðtalinu við Times hefur vakið töluverða gagnrýni í Bretlandi, en hún var þá ólétt af drengnum. Hún hafði þá þegar misst tvö börn sem henni fæddust í Sýrlandi. Skömmu eftir fæðingu Jarrah sonar hennar lét hún hins vegar í ljós þá ósk að hann fengi að snúa aftur til Bretlands og alast upp þar.
Aðstæður í flóttamannabúðunum eru sagðar vera mjög erfiðar og sagði David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands sem nú fer fyrir alþjóðlegu hjálparstarfi, neyðarástand blasa við í búðunum. Þar dvelji nú 12.000 manns sem flúið hafi Ríki íslams, fólkið þjáist af vannæringu og sé í áfalli.