157 farast í flugslysi

Boeing 737-farþegaþota Ethiopian Airlines. Mynd úr safni.
Boeing 737-farþegaþota Ethiopian Airlines. Mynd úr safni. AFP

Óttast er að 157 manns hafi farist er Boeing 737-farþegaþota flugfélagsins Ethiopian Airlines hrapaði á leið sinni frá Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, til Nairóbí í Kenýa.

BBC segir talið að 149 farþegar og átta manna áhöfn hafi verið um borð í vélinni og hefur flugfélagið staðfest að engir hafi lifað slysið af. Fólk af 33 þjóðernum er sagt hafa verið um borð í vélinni.

Talsmaður flugfélagsins segir vélina hafa hrapað klukkan 8.44 að staðartíma, skömmu eftir að hún tók á loft. Ekki liggur fyrir hver orsök flugslyssins er, en samkvæmt upplýsingum BBC hvarf vélin af radarskjám um sex mínútum eftir flugtak.

Fyrstu fréttir af flugslysinu bárust er Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, lýsti yfir „innilegri samúð“ vegna atburðarins á Twitter.

Farþegaþotan er talin hafa hrapað í nágrenni bæjarins Bishoftu.
Farþegaþotan er talin hafa hrapað í nágrenni bæjarins Bishoftu. Kort/Google

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að leitar- og björgunarsveitir séu nú á leið á slysstað, en vélin hrapaði í nágrenni bæjarins Bishoftu sem er um 60 km suðaustur af höfuðborginni. 

„Starfsfólk Ethiopian Airlines verður sent á slysstað og mun gera það sem það getur til að aðstoða hjálparsveitir,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Sprengingin og eldurinn var svo öflugur að við gátum ekki komist nálægt honum,“ hefur BBC eftir Bekele Gutema, sem var á vettvangi. „Það er allt brunnið til grunna. Slökkviliðsmenn voru komnir um 11 í morgun og slysið varð um klukkan átta. Það eru fjórar þyrlur á vettvangi núna, en það mun enginn lifa þetta af.“

Flugfélagið flýgur til fjölmargra áfangastaða í Afríku og hefur gott orð á sér fyrir að þykja öruggt flugfélag. 

Farþegaþotan var önnur útgáfa Boeing 737 MAX 8-vélarinnar, en farþegaþota þeirrar gerðar frá indónesíska Lion Air-flugfélaginu hrapaði í hafið úti fyrir ströndum Jövu í október á síðasta ári með þeim afleiðingum að allir 189 sem um borð voru létust. Sú vél hafði verið um 12 mínútur á flugi er hún hrapaði.

BBC hefur eftir talsmönnum Boeing að fyrirtækið fylgist vel með framvindu mála í Eþíópíu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka