Boeing býður fram aðstoð við rannsóknina

Boeing 737-farþegaþota Ethiopian Airlines. Mynd úr safni.
Boeing 737-farþegaþota Ethiopian Airlines. Mynd úr safni. AFP

Boeing-flugvélaframleiðandinn segir dauða 157 manns sem voru um borð í farþegaþotu flugfélagsins Ethiopia Airlines, sem hrapaði skömmu eftir flugtak í morgun, vekja fyrirtækinu mikla sorg. Heitir Boeing því að veita alla nauðsynlega tæknilega aðstoð við rannsókna.

Þotan, sem var á leiðinni frá Addis Ababa höfuðborg Eþíópíu til Naíróbí í Kenýa, var af gerðinni Boeing 737 MAX 8. Vélin var tekin í notkun síðasta haust og er sömu tegundar og farþegaþota Lyon Air-flugfélagsins sem hrapaði úti fyrir strönd Jövu síðasta haust. Hún hafði ekki verið nema sex mínútur á flugi er hún hrapaði.

„Það hryggir Boeing innilega að frétta af láti farþega og áhafnar Ethiopian Airlines, flugs 302, á 737 MAX 8-farþegaþotu,“ segir í yfirlýsingunni. „Við sendum fjölskyldum og ástvinum farþega og áhafnar okkar innilegustu samúðarkveðjur og erum reiðubúin að aðstoða teymi Ethiopian Airlines.“ Tæknilið frá Boeing sé reiðubúið að veita tæknilega aðstoð verði þess óskað undir eftirliti bandarísku flugslysanefndarinnar.

Boeing 737 MAX-farþegaþotan er ein nýjasta og tæknilegasta farþegaþota sem nú er á markaði. Boeing hefur hins vegar sætt gagnrýni undanfarið vegna mögulegra tæknigalla á vélinni, en farþegaþotan kom fyrst á markað árið 2017. Varð gagnrýnin ekki hvað síst hávær eftir að vél Lyon Air hrapaði í fyrra með þeim afleiðingum að allir 189 sem um borð voru létust.

Rannsakendur þess flugslyss sögðu að svo virtist sem vandamál hefðu verið með hraða- og hallamæla vélarinnar og í kjölfarið gaf Boeing út sérstakar leiðbeiningar um hvað flugmenn eigi að gera lendi þeir í sambærilegum aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert