Of hættulegt að bjarga drengnum

AFP

Of hættulegt var að senda breska embættismenn til þess að bjarga syni Shamima Begum í Sýrlandi, segir utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt.

Drengurinn lést í flóttamannabúðum í Sýrlandi en móðir hans hefur verið svipt breskum ríkisborgararétti. Það var hins vegar gert eftir fæðingu hans og drengurinn því breskur ríkisborgari. Hunt segir í samtali við BBC að líf allra björgunarmanna sem þangað færu væri í hættu.

„Móðirin valdi að yfirgefa frjálst ríki til þess að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök,“ segir Hunt. Hann staðfestir að Jarrah, sem var þriggja vikna gamall þegar hann lést, væri breskur ríkisborgari þrátt fyrir að móðir hans hafi verið svipt réttinum. 

AFP

Nokkrir blaðamenn hafa farið í flóttamannabúðirnar og rætt við Begun en Hunt segir að stjórnvöld verði að hafa í huga öryggi breskra embættismanna og að búðirnar séu á stríðssvæði.

„Shamima vissi þegar hún tók þá ákvörðun að ganga til liðs við Daesh (Ríki íslams) að hún væri að fara til lands þar sem ekkert sendiráð væri, enginn ræðismaður og ég er hræddur um að þessar ákvarðanir, sama hversu ömurlegt það er, hafi afleiðingar,“ segir Hunt.

Shamima Begum var fimmtán ára gömul þegar hún fór frá Bretlandi til Sýrlands árið 2015 til þess að ganga til liðs við vígasamtökin Ríki íslams.

Að sögn Hunt er utanríkisráðuneytið að leita leiða til að finna bresk börn svonefndra brúða Ríkis íslams og koma þeim úr landi.

Upplýsingar um að tvær aðrar breskar konur, sem einnig eru í sýrlenskum búðum, hafi verið sviptar ríkisborgararétti voru birtar í dag. Um er að ræða systur, Reema Iqbal og Zara, sem eru frá austurhluta London. Þær eru báðar í flóttamannabúðum með börnum sínum.

Heimildir BBC herma að ákvörðun um að svipta þær ríkisborgararétti hafi verið tekin af Amber Rudd, fyrrverandi innanríkisráðherra, en hún lét af embættinu í apríl 2018.

Ákvörðun um að svipta einhvern ríkisborgararétti er afar fátíð í Bretlandi en þeim hefur fjölgað að undanförnu. Til að mynda voru 104 sviptir ríkisborgararétti 2017 samanborið við 50 árið á undan. Í mörgum tilvikum er ákvörðun tekin að teknu tilliti til þjóðaröryggis og eins ef viðkomandi styður vígasamtök eins og al-Qaeda. Jafnframt hafa glæpamenn, þar á meðal þrír menn úr Rochdale-nauðgunargenginu, verið sviptir ríkisborgararétti. 

Í frétt Sunday Times í dag kemur fram að Reema, sem er þrítug, og Zara, sem er 28 ára, séu ekki í sömu flóttamannabúðunum í Sýrlandi en þær eru hluti af þúsundum fjölskyldna sem hafa flúið svæði sem áður voru undir yfirráðum vígamanna. Alls eiga þær systur fimm syni sem eru allir yngri en átta ára. Foreldrar þeirra koma frá Pakistan en ekki er vitað hvort þeir eru með tvöfalt ríkisfang.

Samkvæmt Sunday Times fóru systurnar frá Bretlandi til Sýrlands árið 2013 eftir að hafa gifst vígamönnum sem tengjast mjög morðum á vestrænum gíslum Ríkis íslams. Aftökum sem teknar voru upp á myndband og sýndar á netinu.

Zara var þunguð, þegar hún fór til Sýrlands, að öðru barni sínu og eignaðist síðan eitt barn til viðbótar í Sýrlandi. Reema á son fæddan í Bretlandi og annan sem fæddist í Sýrlandi.

Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir mál Begum. Jarrah lést úr lungnabólgu á fimmtudag samkvæmt upplýsingum frá læknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert