Flugritar farþegaþotunnar fundnir

Brak farþegaþotunnar. Enginn þeirra 157 sem um borð voru lifði …
Brak farþegaþotunnar. Enginn þeirra 157 sem um borð voru lifði slysið af. Búið er að finna hljóðrita vélarinnar. AFP

Búið er að finna flugrita farþegaþotu Ethiopian Airlines sem hrapaði skömmu eftir flugtak í gær með þeim afleiðingum að 157 manns létust, að því er BBC greinir frá

Eþíópískir fjölmiðlar hafa greint frá þessu og segja búð að finna bæði ferðaritann (e. Flig­ht Data Recor­der) og hljóðritann (e. Cockpit Voice Recor­der) sem geymir hljóðupptökur af samtölum flugmannanna tveggja, en upp­tak­an var­ir meðan á flugi stend­ur og þangað til flug­vél­in lend­ir eða hrap­ar. 

Þotan hrapaði klukkan 8.44 í gærmorgun að staðartíma í nágrenni bæjarins Bishoftu, sex mínútum eftir að hún hélt í loftið frá flugvellinum í Addis Ababa á leið til Naíróbí í Kenýa. Flugmaðurinn hafði þá þegar tilkynnt að eitthvað væri ekki í lagi og hafði óskað eftir leyfi til að snúa við.

Sérfræðingar hafa þó varað við að of snemmt sé að segja til um hvað olli slysinu.

Boeing 737 MAX-8-farþegaþotan er ein nýj­asta og tækni­leg­asta farþegaþota sem nú er á markaði. Boeing hef­ur hins veg­ar sætt gagn­rýni und­an­farið vegna mögu­legra tæknigalla á vél­inni. Farþegaþotan kom fyrst á markað árið 2017 og er flugslysið í gær annað mannskæða flugslysið sem vél þessarar tegundar kemur við sögu í á aðeins nokkrum mánuðum.

Fyrr í dag tilkynntu kínversk yfirvöld að þau hefðu kyrrsett allar Boeing 737 Max 8-farþegaþotur kínverskra flugfélaga og hafa flugmálayfirvöld á Cayman-eyjum gert það sama. Nú fyrir skemmstu greindu yfirvöld í Indónesíu frá því að þau hygðust grípa til sömu aðgerða, en 189 manns létust þegar farþegaþota indónesíska Lion Air-flugfélagsins hrapaði úti fyrir ströndum Jövu í október í fyrra. 

„Flugmálastjóri mun láta framkvæma rannsókn og verður tímabundið bann lagt við flugi Boeing 737 Max 8 frá Indónesíu,“ sagði flugmálastjórinn Polana Prameseti á fundi með fjölmiðlum í Jakarta. Ekki verði gefið loftferðaleyfi fyrir þessa tegund véla, fyrr en að lokinni skoðun öryggissérfræðinga.

Eþíópíska flugfélagið Ethiopian Airlines, sem átti vélina sem hrapaði í gær tilkynnti í morgun að það hefði ákveðið að kyrr­setja sín­ar vél­ar sömu gerðar þar til annað yrði ákveðið. „Þó að við vit­um ekki enn hvað olli slys­inu höf­um við ákveðið að kyrr­setja þenn­an flota sem ör­ygg­is­ráðstöf­un,“ sagði flug­fé­lagið á Twitter.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert