„Lagalega bindandi breytingar“ náðust

Theresa May og Jean Claude-Juncker í Strassborg í dag.
Theresa May og Jean Claude-Juncker í Strassborg í dag. AFP

Breska ríkisstjórnin sagði í kvöld að samkomulag hefði náðst um „lagalega bindandi breytingar“ á útgöngusamningi Bretlands við Evrópusambandið, en Theresa May forsætisráðherra Breta hélt í dag til Strassborgar í Frakklandi og átti viðræður við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Breytingarnar sem náðst hafa varða „varnaglann“ um írsku landamærin, samkvæmt því sem David Lidington, staðgengill May sem forsætisráðherra, tjáði breska þinginu nú fyrir skemmstu.

Hann sagði að breytingarnar myndu „styrkja og bæta“ útgöngusamning Bretlands og þar af leiðandi einnig framtíðarsamband Bretlands og Evrópusambandsins.

Fram kom í máli Lidington, samkvæmt frétt BBC um málið, að May væri enn á fundi með fulltrúum Evrópusambandsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert