Meirihluti þingmanna í neðri deild breska þingsins hafnaði í kvöld í annað sinn samningi Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, við Evrópusambandið um útgöngu landsins úr sambandinu. Samningnum var hafnað með 391 atkvæði gegn 242 atkvæðum.
Forsætisráðherrann sagðist harma það að útgöngusamningnum hefði verið hafnað. Hún teldi enn að samningurinn væri besti kosturinn í stöðunni. Hún greindi frá því að á morgun yrðu greidd atkvæði um það hvort Bretland yfirgæfi Evrópusambandið án útgöngusamnings. May sagði að þingmenn Íhaldsflokks hennar myndu hafa frjálst val í þeirri atkvæðagreiðslu.
Ef samþykkt yrði að yfirgefa Evrópusambandið án útgöngusamnings yrði það stefna ríkisstjórnarinnar. May sagði hins vegar ekki telja það yrði æskileg niðurstaða. Yrði því hafnað yrðu greidd atkvæði um það á fimmtudaginn hvort óska ætti eftir því við sambandið að fresta formlegri útgöngu Bretlands sem fyrirhuguð er þann 29. mars.
May minnti þingmenn hins vegar á að það leysti ekki vandamálin sem við væri að eiga að hafna því að yfirgefa Evrópusambandið án samnings og fresta útgöngunni. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði niðurstöðuna niðurlægjandi ósigur fyrir May. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að Bretland yfirgæfi ekki sambandið án samnings.