Meirihluti Breta telur útgöngusamning Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, við Evrópusambandið ekki fela í sér það sem breskir kjósendur hafi kallað eftir í þjóðaratkvæðinu sumarið 2016 þegar samþykkt var að yfirgefa sambandið (Brexit).
Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að samkvæmt niðustöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins YouGov telji 58% aðspurðra samning May ekki uppfylla það sem meirihluti breskra kjósenda hafi viljað í þjóðaratkvæðagreiðslunni að yrði gert. Á sama tíma eru aðeins 12% sem telja samninginn uppfylla þjóðaratkvæðið.
Spurðir hvernig fólk vildi helst að útgangan úr Evrópusambandinu yrði framkvæmd sögðust 37% vilja að Bretland yfirgæfi sambandið án útgöngusamnings, 33% vildu annað þjóðaratkvæði og 17% sögðust vilja fresta útgöngunni svo meiri tími yrði til þess að semja.
Gert er ráð fyrir því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið 29. mars en greidd verða atkvæði í kvöld í neðri deild breska þingsins um útgöngusamning Mays í annað sinn með ákveðnum lagalega bindandi áréttingum en honum var hafnað fyrr á þessu ári með miklum meirihluta.