Barnaníðingur í Páfagarði

George Pell, fyrrverandi fjármálastjóri Páfagarðs og kardínáli, var í dag dæmdur í sex ára fangelsi fyrir barnaníð. 

Pell var dæmdur fyrir að hafa beitt tvo drengi kynferðislegu ofbeldi í Ástralíu. Aldrei áður hefur jafn hátt settur einstaklingur innan kaþólsku kirkjunnar verið dæmdur fyrir barnaníð. Pall beitti 13 ára gamla kórdrengi kynferðisofbeldi í dómkirkju í Melbourne árið 1996, samkvæmt niðurstöðu dómsins. 

Kardínálinn, sem er 77 ára gamall, heldur því fram að hann sé saklaus og ætlar að áfrýja niðurstöðunni. 

Í niðurstöðu dómsins í dag segir að klerkurinn hafi beitt drengina tvo harkalegu ofbeldi. Kviðdómur var einróma um sekt Pells í desember, að hann hafi beitt börn kynferðislegu ofbeldi. Þegar niðurstaðan var ljós hafði það mikil áhrif á kaþólsku kirkjuna enda Pell náinn ráðgjafi páfa.

Pell á ekki möguleika á reynslulausn fyrr en undir lok árs 2022. Vísaði dómarinn til aldurs Pell og versnandi heilsu hans og benti Pell um leið á það að mögulega myndi hann eyða því sem hann ætti ólifað á bak við lás og slá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert