Meirihluti þingmanna í neðri deild breska þingsins hafnaði því í kvöld að Bretland segði skilið við Evrópusambandið án útgöngusamnings með 312 atkvæðum gegn 308. Um var að ræða breytingartillögu við tillögu ríkisstjórnarinnar.
Tillaga ríkisstjórnarinnar snerist um að ekki yrði gengið úr Evrópusambandinu 29. mars án samnings en að öðru leyti yrði sú leið áfram fyrir hendi ef ekki tækist að landa útgöngusamningi við sambandið.
Tveir þingmenn stóðu að breytingatillögunni. Annar þeirra, Caroline Spelman, þingmaður Íhaldsflokksins, vildi draga tillöguna til baka en hinn, Yvette Cooper, þingmaður Verkamannaflokksins, ekki.
Ríkisstjórnin fór fram á það í kjölfarið að greidd yrðu atkvæði um tillögu hennar með breytingatillögunni og var tillagan samþykkt með 321 atkvæði gegn 278.
May sagði eftir atkvæðagreiðsluna að eftir sem áður færi Bretland úr Evrópusambandinu ef ekki yrði samið um annað. Vísaði hún til þess að tillagan væri ekki bindandi.
Atkvæðagreiðslan var haldin í kjölfar þess að útgöngusamningi Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, var hafnað á þriðjudaginn í annað sinn. Þetta þýðir að greidd verða atkvæði um það á morgun hvort óska eigi eftir því að fresta útgöngunni úr Evrópusambandinu.
Fréttin hefur verið uppfærð.