Enn drýpur blóð

Særð sýrlensk stúlka bíður hjálpar eftir loftárásir í Khan Sheikhun …
Særð sýrlensk stúlka bíður hjálpar eftir loftárásir í Khan Sheikhun í Idlib-héraði í lok febrúar. Undir henni er lík systur hennar sem fórst í árásinni. AFP

Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í átta ár. Blóðug átök, sem hafa geisað í að verða 100 mánuði samfleytt, hafa kostað meira en 360 þúsund manns lífið. Milljónir hafa misst heimili sín, flúið ofbeldi og eru enn á flótta, innan Sýrlands eða utan.

Margar aðrar þjóðir hafa komið að málum með einum eða öðrum hætti, flestar vegna ótta við uppgang hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. Ljóst er að innviðir Sýrlands eru í molum, hvort sem litið er til heilbrigðis- og menntakerfisins eða samgöngumála. 

Hér að neðan verður farið yfir atburðarásina hingað til í stórum dráttum.

Uppreisn og kúgun

Í mars 2011 hófust fordæmalaus mótmæli í Sýrlandi þar sem krafist var lýðræðisumbóta og mannréttinda. Einnig var þess krafist að pólitískum föngum yrði sleppt úr haldi. Þá hafði Assad-fjölskyldan ríkt í landinu í fjóra áratugi.

Ríkisstjórnin réðst gegn mótmælendum með hervaldi en fólkið hélt áfram að safnast saman og berjast fyrir rétti sínum.

Blossi frá bandarískri sprengju í Baghouz í austurhluta Sýrlands í …
Blossi frá bandarískri sprengju í Baghouz í austurhluta Sýrlands í gær. Þar er síðasta vígi Ríkis íslams. Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í heil átta ár. AFP

Í júlí stofnaði fyrrverandi ofursti í stjórnarhernum andspyrnuher sem kallast Frelsisher Sýrlands (FSA). Bækistöðvar hans voru í Tyrklandi.

Loftárásir, Hezbollah og Íran

Ári eftir að uppreisnin hófst, í mars árið 2012, náði stjórnarherinn aftur völdum í borginni Homs, þriðju stærstu borg landsins, eftir að uppreisnarmenn höfðu náð þar yfirráðum. Stjórnarherinn hafði farið í fleiri blóðugar hernaðaraðgerðir gegn mótmælendum, m.a. í borginni Hama sem er í miðju Sýrlands. 

Í júlí þetta ár gerði Frelsisherinn áhlaup á höfuðborgina Damaskus en stjórnarherinn varðist grimmt og stóð það af sér.

Á árinu 2013 hóf stjórnarherinn að varpa svokölluðum tunnusprengjum á yfirráðasvæði uppreisnarmanna. Sama ár greindi skæruliðahópur Hezbollah frá því að hann berðist við hlið stjórnarhersins í Sýrlandi. Sá hópur nýtur svo stuðnings stjórnvalda í Íran og veittu þau Bashar al-Assad forseta einnig beinan hernaðarlegan stuðning.

Uppgangur öfgamanna

Í júní árið 2014 lýstu hryðjuverkasamtökin Ríki íslams yfir stofnun kalífadæmis á landsvæðum í Sýrlandi sem þau höfðu sölsað undir sig eftir átök við bæði stjórnarherinn og vopnaða hópa uppreisnarmanna. Borgin Raqqa var þá komin á vald vígamannanna og kölluðu þeir hana höfuðborg kalífadæmisins. Samtímis höfðu þeir náð yfirráðum á svæðum handan landamæranna í Írak.

Liðsmenn Sýrlensku lýðræðissveitanna í miðjum átökum í Deir Ezzor-héraði þar …
Liðsmenn Sýrlensku lýðræðissveitanna í miðjum átökum í Deir Ezzor-héraði þar sem enn er barist við vígamenn Ríkis íslams. AFP

 Í september þetta ár hóf hernaðarbandalag undir forystu Bandaríkjamanna loftárásir á herbúðir Ríkis íslams í Sýrlandi. Kúrdar sem tekið höfðu upp sjálfsstjórn á svæðum í austurhlutum Sýrlands og Tyrklands reyndust njóta góðs af þessu og stofnuðu Sýr­lensku lýðræðis­sveit­irnar (SDF) sem höfðu stuðning hernaðarbandalagsins. Sveitirnar tóku þátt í því að ná Raqqa úr höndum vígamanna Ríkis íslams sem tókst loks í október árið 2017.

Rússar koma Assad til aðstoðar

Í september árið 2015 hófu Rússar loftárásir í Sýrlandi til stuðnings Assad forseta sem hafði þá smám saman verið að missa völdin á stórum svæðum í landinu. Þetta inngrip í stríðið varð til þess að Assad og hans menn náðu aftur vopnum sínum og hófu aftur að endurheimta svæði sem uppreisnarmenn höfðu tekið yfir. Þannig náði stjórnarherinn Aleppo á sitt vald á ný í desember árið 2016.

Í janúar árið 2017 skipulögðu sýrlensk stjórnvöld ásamt Rússum og Írönum, sínum helstu bandamönnum, sem og Tyrkjum sem höfðu stutt uppreisnarmennina, friðarviðræður í Kasakstan. Þeir fundir skyggja á friðarviðræður sem Sameinuðu þjóðirnar reyndu að leiða.

Loftárásir Bandaríkjamanna

Í apríl 2017 var gerð sarín-gasárás í bænum Khan Sheikhun sem þá var undir yfirráðum uppreisnarmanna. Yfir 80 létust. Árásin olli óhug um allan heim og í kjölfarið heimilaði Donald Trump Bandaríkjaforseti loftárásir herja sinna á herstöð stjórnarhersins í Shayrat.

Ung stúlka ásamt fleiri flóttamönnum frá Baghouz í austurhluta Sýrlands.
Ung stúlka ásamt fleiri flóttamönnum frá Baghouz í austurhluta Sýrlands. AFP

 Ríkisstjórn Assad hefur ítrekað verið sökuð um að beita efnavopnum í hernaði sínum en hefur ætíð neitað því.

Sókn Tyrkja

Í janúar í fyrra hófu tyrknesk stjórnvöld hernað gegn varnarsveitum Kúrda (YPG) sem eru hryggjarstykkið í Sýrlensku lýðræðissveitunum (SDF). Stjórnvöld í Ankara eru því mótfallin að Kúrdar fái sjálfstæði og í mars á síðasta ári hertóku þau Afrin-hérað og ráku YPG-liða á flótta og kölluðu þá „hryðjuverkamenn“.

Leifturstríð í Austur-Ghouta

Í febrúar í fyrra hóf Sýrlandsher grimmúðlegar árásir á Austur-Ghouta, eitt allra síðasta vígi uppreisnarmanna í nágrenni höfuðborgarinnar Damaskus. Í apríl segist stjórn Assads svo vera búin að ná völdum í héraðinu. Yfir 1.700 féllu í árásunum. Sama dag gera Bandaríkjamenn, Frakkar og Bretar árásir í landinu í kjölfar meintrar efnavopnaárásar á óbreytta borgara í bænum Douma í Austur-Ghouta.

Trump kallar hermenn heim

19. desember síðastliðinn tilkynnti Trump að hann hygðist kalla alla bandaríska hermenn heim frá Sýrlandi, 2.000 talsins. Í færslu á Twitter skrifaði hann að Bandaríkin hefðu „gjörsigrað Ríki íslams“.

Árásir stjórnarhersins á þorp í Austur-Ghouta voru grimmilegar. Hér fær …
Árásir stjórnarhersins á þorp í Austur-Ghouta voru grimmilegar. Hér fær stúlka aðhlynningu í sjúkraskýli í héraðinu. AFP

Í lok desember lýstu YPG-liðar yfir áhyggjum af hættu á frekari árásum Tyrkja og biður Sýrlandsher um að flytja hermenn að víglínunum í norðri.

2. febrúar hófu Sýrlensku lýðræðissveitirnar (SDF) að sækja fram á síðustu yfirráðasvæðum vígamanna Ríkis íslams í austurhluta Sýrlands. Á vikunum sem fylgdu flúðu tugir þúsunda, þeirra á meðal vígamennirnir, frá svæðinu. 

Í dag, 13. mars, sagði SDF Ríki íslams vera í andaslitrunum eftir að sveitirnar gerðu skyndiárásir á allra síðustu smávígi samtakanna.

Efnavopnaárás var gerð í byrjun apríl árið 2017 og urðu …
Efnavopnaárás var gerð í byrjun apríl árið 2017 og urðu mörg börn fyrir henni í bænum Khan Sheikhun í Idlib-héraði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert