Hefur áhrif á þúsundir farþega Norwegian

Flugvél frá norska flugfélaginu Norwegian. Mynd úr safni.
Flugvél frá norska flugfélaginu Norwegian. Mynd úr safni.

Norska flugfélagið Norwegian hefur nú þegar aflýst þremur flugferðum frá Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn vegna kyrrsetningar á Boeing 737 Max 8-farþegaþotunum, en þota þeirrar tegundar hrapaði með 157 manns í Eþíópíu á sunnudag.

Danska ríkisútvarpið DR segir kyrrsetninguna nú þegar hafa haft áhrif á þúsundir farþega.

„Við gerum það sem við getum til að hjálpa þeim sem þetta hefur áhrif á þannig að þetta hafi sem minnst áhrif,“ segir Charlotte Holmberg Jacobsson upplýsingafulltrúi Norwegian.

18 Max 8-vélar eru í flota Norwegian og segir DR flugfélagið einnig hafa aflýst áætlunarflugi í Noregi og Svíþjóð.

Segir Jacobsson níu flugferðum sem fara átti frá Arlanda-flugvellinum í Stokkhólmi hafa verið aflýst, en ekki liggi enn fyrir hversu margar flugferðir sem fara eiga frá Ósló kyrrsetningin muni hafa áhrif á.

„Það eru fleiri þúsundir sem þetta hefur áhrif á í dag, en flestir þeirra hafa verið bókaðir í næsta flug,“ segir í  svari Jacobsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert