Mislingar herja á íbúa New York og frá því í október hafa 146 einstaklingar, flestir á barnsaldri, verið greindir með mislinga. Einkaskóli í Rockland-sýslu, Green Meadow Waldorf-skólinn, tók þá óvanalegu ákvörðun í desember að banna óbólusettum nemendum að mæta til skóla og skipti engu hvort barnið var óbólusett af heilsufars- eða trúarástæðum.
Foreldrar barnanna, sem eru 42 talsins, höfðuðu mál gegn heilbrigðisyfirvöldum í sýslunni og kröfðust þess að alríkisdómari myndi úrskurða að bannið stæðist ekki. Þeim varð hins vegar ekki að ósk sinni því bannið var á þriðjudag staðfest af dómara.
Vincent Bricetti, dómari við alríkisdómstólinn í White Plains, segir að foreldrum barnanna hafi ekki tekist að færa sönnur á að það væri almenningi til hagsbóta ef þessi börn fengju að fara aftur í skólann.
Saksóknari í Rockland segir að á sama tíma og það sé öllum á móti skapi að börnin fái ekki að koma í skólann sé ekki hægt að útiloka þá staðreynd að með þessu hafi verið komið í veg fyrir mislingasmit innan skólans.
Ákvörðun yfirvalda í Rockland og niðurstaða dómarans þrýstir á að fleiri sveitarfélög grípi til svipaðra aðgerða. Í síðustu viku bar unglingspiltur frá Ohio vitni á bandaríska þinginu þar sem hann sagðist telja að móðir hans hafi fallið fyrir falskenningum um hættuna sem fylgi slíkum bólusetningum. Pilturinn fór og lét bólusetja sig þrátt fyrir andstöðu foreldra.
Nokkrum dögum síðar lögðu þingmenn New York-ríkis fram frumvarp um að heimila unglingum að láta bólusetja sig án samþykkis foreldra. Á mánudag lýstu samtök barnalækna í Bandaríkjunum yfir stuðningi við frumvarpið.
New York Times segir að enn sem komið er hafi ekki komið upp nein mislingasmit meðal nemenda í Green Meadow. Af þeim sem hafa smitast í mislingafaraldrinum í New York þennan veturinn eru flestir gyðingar (Orthodox Jewish) en bólusetningar eru sjaldgæfari meðal þeirra en annarra trúarhópa. Öll börnin sem ekki voru bólusett í Green Meadow voru ekki bólusett af trúarástæðum. Ekkert þeirra er samt í þessu trúfélagi en aldrei áður hafa heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum tekið ákvörðun um að banna börnum að koma til skóla vegna þess að þau eru ekki bólusett.