Ofsótt fyrir að verja kvenréttindi

Nasrin Sotoudeh er mannréttindalögfræðingur.
Nasrin Sotoudeh er mannréttindalögfræðingur. AFP

38 ár í fangelsi. 148 svipuhögg. Þannig hljóðar dómur íranskra dómstóla yfir mannréttindalögfræðingnum Nasrin Sotoudeh. Glæpurinn: Að verja mannréttindi kvenna og mótmæla lögum sem þvinga þær til að hylja sig á almannafæri.

Sotoudeh, 55 ára og tveggja barna móðir, var handtekin á heimili sínu í júní í fyrra og ákærð fyrir njósnir, að dreifa áróðri og móðga æðsta leiðtoga Írans. Hún hefur verið í varðhaldi síðan.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún sætir ofsóknum vegna vinnu sinnar.

Árið 2010 var hún dæmd í sex ára fangelsi fyrir svipaðar sakargiftir; að dreifa áróðri og ógna öryggi ríkisins. Hún lýsti yfir sakleysi sínu, sat í fangelsi í þrjú ár en var þá sleppt ásamt tíu öðrum pólitískum föngum skömmu áður en forseti Írans ávarpaði þing Sameinuðu þjóðanna. Hún hlaut í kjölfarið mannréttindaverðlaun Evrópuþingsins. Antonio Tajani, forseti þingsins, segir að dómurinn nú sé „algjörlega fráleitur“ og skrifaði í færslu á Twitter að Evrópuþingið stæði enn með Sotoudeh.

Ríkisfréttastofa í Íran hafði á mánudag eftir dómara í Teheran að Sotoudeh hefði verið dæmd í sjö ára fangelsi fyrir mótmæli sem ógnuðu þjóðaröryggi og fyrir að móðga leiðtoga landsins, Ayatollah Ali Khamenei. Eiginmaður hennar, Reza Khandan, greindi hins vegar að dómurinn hefði verið mun harðari eða áratugir á bak við lás og slá og tugir svipuhögga.

Í frétt New York Times segir að munurinn á yfirlýsingu dómarans og eiginmannsins felist í því að svo virðist sem Sotoudeh hafi verið dæmd til langrar fangelsisvistar árið 2015, án þess að hún hafi verið viðstödd uppkvaðninguna. Sá dómur bætist nú við þau sjö ár sem hún var á mánudag dæmd til að afplána. „Ég veit ekki hversu mörg ár hún fékk í hvoru tilvikinu fyrir sig því ég fékk aðeins að tala við Nasrin í nokkrar mínútur og við gátum ekki farið út í smáatriði,“ hafa mannréttindasamtökin Center for Humar Rights eftir eiginmanninum. „Ég veit aðeins að lengsti dómurinn var tólf ár“ fyrir þann ákærulið að hafa „hvatt til spillingar og vændis“.

Í yfirlýsingu Amnesty International um málið segir að dómarar málsins hafi ákveðið að nýta refsirammann til fulls í hverjum ákærulið fyrir sig. Hvetja samtökin alla til að fordæma niðurstöðuna og krefjast þess að dómurinn verði dreginn til baka og Sotoudeh sleppt úr haldi.

„Burt séð frá því hversu langur dómurinn raunverulega er, eru ofsóknir á hendur Sotoudeh og öðrum írönskum mannréttindalögfræðingum svívirðilegt brot á grundvallarréttindum sakborninga um lögfræðiaðstoð,“ segir í leiðara New York Times um málið. Sotoudeh sé ein af að minnsta kosti sjö mannréttindalögfræðingum sem handteknir hafa verið í Íran síðasta árið. Stjórnvöld hafi lýst því yfir að það sé lögbrot í sjálfu sér að verja pólitíska fanga. Því bjóðist pólitískum föngum aðeins að velja sér lögfræðing af stuttum lista sem dómstólar hafi lagt blessun sína yfir.

Sotoudeh hafði sjálf vakið athygli á þessu í viðtali stuttu fyrir handtöku sína og sagt að fyrirkomulagið gerði það að verkum að hægt sé að handtaka, yfirheyra, ákæra og dæma pólitíska fanga án þess að upplýsingar um mál þeirra komi nokkru sinni fyrir augu og eyru almennings. Leiðarahöfundar New York Times skrifa að ríkisstjórnir lýðræðisríkja sem og mannréttindastofnanir verði að gera harðlínustjórnvöldum í Íran það ljóst að enginn láti blekkjast af hinu bjagaða réttarkerfi þeirra.

Nasrin Sotoudeh ásamt eiginmanni sínum, Reza Khandan.
Nasrin Sotoudeh ásamt eiginmanni sínum, Reza Khandan. AFP

Um það leyti sem Sotoudeh var handtekin í júní hafði hún varið konur sem höfðu verið handteknar fyrir að taka af sér andlitsslæður (hijab) í almennum mótmælum. Írönskum konum og stúlkum er samkvæmt lögum stranglega bannað að yfirgefa heimili sín án þess að hylja andlit sín, hendur og fætur. „Nasin vildi breyta þessu og hún var hneppt í varðhald fyrir þá afstöðu sína,“ segir í ákalli Amnesty International vegna dómsins.

Aðeins nokkrum dögum áður en dómurinn var kveðinn upp var Ebrahim Raisi skipaður yfirmaður dómsmála í Íran. Talið er að ráðning hans muni veikja pólitísk áhrif forseta landsins, Hassan Rouhani, sem er álitinn nokkuð hófsamur á íranskan mælikvarða.

Kerfisbundnar hótanir og handtökur

Írönsk stjórnvöld hafa ítrekað verið sökuð um mannréttindabrot. Nýverið gerðist það í fyrsta sinn í fleiri ár að yfirmanni mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum var boðið í heimsókn til að kynna sér dómskerfið. Rannsakandi stofnunarinnar á mannréttindum í Íran vakti svo athygli á máli Sotoudeh á mannréttindaþingi í byrjun vikunnar. Sagði hann að allt benti til þess að hún hefði verið sakfelld fyrir að sinna störfum sínum og ætti langan fangelsisdóm yfir höfði sér. Sagði hann áhyggjuefni að þeir sem berðust fyrir mannréttindum í Íran, lögfræðingar og verkalýðsleiðtogar, sæti kerfisbundnum hótunum, handtökum, saksóknum og slæmri meðferð í auknum mæli.

Greinin byggir á fréttum New York Times, Guardian o.fl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert