Sagði Mussolini hafa gert ýmislegt jákvætt

Antonio Tajani, forseti þings Evrópusambandsins.
Antonio Tajani, forseti þings Evrópusambandsins. AFP

Forseti Evrópuþingsins, Antonio Tajani, neyddist í dag til þess að biðjast afsökunar á ummælum sem hann lét falla í útvarpsviðtali þar sem hann sagði að hægt væri að segja ýmislegt jákvætt um ítalska fasistaforingjann Benito Mussolini þrátt fyrri að hann hefði líka gert slæma hluti.

Tajani sagði að Mussolini, sem var einræðisherra á Ítalíu í um tvo áratugi á fyrri hluta síðustu aldar, hefði þannig til dæmis lagt vegi og byggt brýr áður en hann fangelsaði pólitíska andstæðinga, ofsótti gyðinga, gerði bandalag við nasistaforingjann Adolf Hitler og atti Ítalíu út í heimsstyrjöld.

„Maður þarf ekki að vera sammála aðferð hans, en verum heiðarleg. Mussolini lagði vegi, byggði brýr og reisti byggingar og íþróttamannvirki. Hann endurreisti ýmis svæði á Ítalíu,“ sagði Tajani. Almennt hafi gerðir stjórnar Mussolinis ekki verið jákvæðar en hún hefði komið ýmsu í verk.

Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en ummælin urðu til þess að nokkrir þingmenn á Evrópuþinginu og ítalskir stjórnmálamenn kölluðu eftir afsögn Tajanis sem varð til þess að hann sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar á þeim.

Þar sagðist Tajani andvígur fasisma og sagðist biðja alla afsökunar sem hann kynni að hafa móðgað með ummælum sínum. Þeim hefði á engan hátt verið ætlað að réttlæta eða gera lítið úr stjórn sem hafi verið bæði andlýðræðisleg og gerræðisleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert