Flugfélag hefur beðið 21 árs konu afsökunar eftir að hafa hótað því að henni yrði vikið frá borði fyrir óviðeigandi klæðaburð. Konan greindi frá málinu á Twitter-síðu sinni.
Emily O'Connor flaug með Thomas Cook frá Birmingham til Tenerife 2. mars. Áhöfnin um borð sagði að klæðnaður hennar gæti móðgað einhverja en O´Connor klæddist topp og buxum.
„Flugfélagið sagði að það myndi láta mig yfirgefa vélina ef ég myndi ekki „hylja mig“ vegna þess að ég móðgaði fólk og hegðun mín væri óviðeigandi,“ skrifaði O´Connor á Twitter.
Hún hafi verið í sömu fötum á flugvellinum og það hafi ekki verið fyrr en hún ætlaði að ganga inn í flugvélina sem klæðnaður hennar olli vandræðum.
O´Connor kveðst hafa staðið upp og spurt aðra farþega hvort klæðnaður hennar væri særandi á einhvern hátt. Enginn svaraði því játandi. Henni var hins vegar skipað að fara í jakka, sem hún gerði að lokum.
Flugfélagið hefur beðist afsökunar á því „hvernig tekið var á málinu“.