Vildi hefna fyrir morðið á Ebbu

Ebba Akerlund var á leið til fundar við móður sína …
Ebba Akerlund var á leið til fundar við móður sína er hún varð undir vörubílnum sem notaður var til árásarinnar í Stokkhólmi.

Móðir sænskrar stúlku sem lést í hryðjuverkaárás árið 2017 segist skelfingu lostin yfir þeim voðaverkum sem framin voru í moskum á Nýja-Sjálandi í morgun. Að minnsta kosti önnur árásin var framin af manni sem sagðist í ítarlegri „stefnuyfirlýsingu“ sinni m.a. gera það til að hefna fyrir morðið á stúlkunni. 

Að minnsta kosti 49 féllu í árásunum í morgun. Sá sem hóf skotárás við aðra moskuna er hvítur öfgamaður, 28 ára Ástrali. Hann birti „stefnuyfirlýsingu“ á Twitter og í henni kom fram að hann vildi „hefna fyrir Ebbu Akerlund“. Þá skrifaði hann nafn hennar á eitt vopnanna sem hann notaði í árásinni.

Sænska stúlkan var ellefu ára gömul og var yngsta fórnarlamb hryðjuverkaárásarinnar í Stokkhólmi í apríl árið 2017. Í henni ók hælisleitandi frá Úsbekistan vörubíl um verslunargötu í miðbænum.

Jeanette Akerlund, móðir Ebbu litlu, segir í samtali við sænska ríkissjónvarpið að árásin í nýsjálensku borginni Christchurch í dag „gangi gegn öllu sem Ebba stóð fyrir. Hún dreifði ást og umhyggju, ekki hatri. Ég samhryggist fjölskyldunum sem urðu fyrir þessu. Ég fordæmi allar tegundir ofbeldis“.

Í samtali við Aftonbladet segir hún hræðilegt að nafn dóttur sinnar sé misnotað til að dreifa pólitískum áróðri.

Apríldaginn örlagaríka árið 2017 var Ebba á leið til móður sinnar eftir skólann. Hún hafði sent henni skilaboð og spurt hvort þær ættu að fá sér ís saman á leiðinni heim. Ebba var nýstigin út úr strætisvagn er hún varð undir vörubíl árásarmannsins.

Árásarmaðurinn, Rakhmat Akilov, var dæmdur í lífstíðarfangelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert