Ástralskur unglingur sem kastaði eggjum í ástralska öldungadeildarþingmanninn Fraser Anning er hylltur sem hetja á samfélagsmiðlum og hafa safnast tugþúsundir Ástralíudala til að greiða lögfræðikostnað hans vegna eggjakastsins.
William Connolly, sem er orðinn þekktur sem „eggjadrengurinn“ kramdi egg á höfði Fraser Anning á blaðamannafundi í Melbourne á laugardaginn. Anning svaraði fyrir sig með því að slá Connolly utan undir tvívegis.
Anning, sem er utan flokka eins og stendur, er þekktur fyrir öfgaskoðanir og hatur á innflytjendum. Anning settist á þing í nóvember 2017 eftir að öldungadeildarþingmaðurinn Malcolm Roberts varð að segja af sér vegna þess að í ljós kom að hann var með tvöfalt ríkisfang. Anning var áður í flokknum Ein þjóð en færði sig yfir til Katter Australian (KAP). Hann var hins vegar rekinn úr flokknum í október 2018 fyrir rasískar skoðanir. Á föstudag sagði hann í ræðu á þingi að ástæðan fyrir árásunum þann sama dag væri heimild til handa múslimum að flytja til landsins. Vísar hann þar til hryðjuverka sem kostuðu 50 manns lífið en árásarmaðurinn aðhyllist yfirburði hvíta kynstofnsins.
Yfir 44 þúsund Ástralíudalir, 3,7 milljónir króna, hafa safnast í söfnun á GoFundMe-síðunni. Nota átti féð til þess að greiða lögfræðikostnað og til kaupa á fleiri eggjum. En eggjadrengurinn hefur skrifað inn á síðuna að peningarnir verði sendir til fjölskyldna fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í Christchurch.
Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, lýsir ummælum Anning sem skelfilegum og hryllingi sem ekki eigi heima í Ástralíu. Fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, Kevin Rudd, segir Anning vera bæði rasista og fasista og hvetur Ástrala til þess að skrifa undir áskorun um að hann verði hrakinn af þingi. Þegar hafa 1,2 milljónir skrifað undir áskorunina.
Anning bætti um betur í dag þegar hann ítrekaði ummæli sín um að tengja innflytjendur sem eru íslamstrúar við hryðjuverk. Hann reyndi einnig að verja aðgerðir sínar gagnvart eggjadrengnum, sem er 17 ára gamall, í viðtali í dag.
Lögreglan í Victoria rannsakar nú atvikið, það er bæði aðgerðir Connolly og eins viðbrögð þingmannsins.
Anning hefur áður hvatt til þess að fundinn verði „endanleg lausn á innflytjendavandanum“ og sagt „allir hryðjuverkamenn eru múslimar“.