Dauður hvalur, sem rak að ströndum Filippseyja, var með fjörutíu kíló af plasti í maga sínum. Það voru starfsmenn D'Bone-safnsins sem fundu hræ skugganefjunnar í fjöru austur af borginni Davao. Í Facebook-færslu safnsins segir að dýrið hafi verið fyllt „af meira plasti en við höfum nokkru sinni áður séð í hval“. Í maga skugganefjunnar fundust m.a. sextán pokar utan af hrísgrjónum og fjölmargir innkaupapokar.
Safnið hyggst á næstu dögum birta á Facebook-síðu sinni ítarlegan lista yfir það sem fannst í dýrinu. „Ég átti ekki von á því að svo mikið plast myndi finnast,“ segir Darrell Blatchley, stofnandi og forstjóri safnsins, í samtali við CNN.
Í rannsókn sem birt var árið 2015 var greint frá því að fimm þjóðir Asíu, Kína, Indónesía, Filippseyjar, Víetnam og Taíland, bera ábyrgð á um 60% alls plasts sem endar í hafinu.
Fleiri dæmi eru um hvali sem finnast dauðir, uppfullir af plasti. Í fyrra fannst flipahvalur við strendur Taílands og hafði hann gleypt áttatíu plastpoka.
Skugganefjur kunna best við sig á miklu dýpi. Þær verða um 5-7 metrar að lengd og um 2.500 kíló.