Danir völdu Ericsson frekar en Huawei

AFP

Stærsta fjarskiptafyrirtæki Danmerkur, TDC, hefur ákveðið að sænska fyrirtækið Ericsson muni koma að uppbyggingu 5G-kerfisins þar í landi, en ekki kínverska fyrirtækið Huawei, sem einnig falaðist eftir verkinu í útboði. Greint er frá þessu á vef DR.

Ákvörðunin var tilkynnt í gær og kemur í kjölfar töluverðrar opinberrar umræðu í Danmörku um það, hvort það geti falið í sér öryggisógn að láta kínverska fyrirtækið taka þátt í 5G-væðingunni þar í landi.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa Bandaríkjamenn varað við því að vestrænir bandamenn þeirra semji við fyrirtækið eða þriðju aðila sem nota búnað frá Huawei um 5G-væðingu ríkja sinna, þar sem öryggi upplýsinga sem fara um búnað Huawei sé ótryggt.

Allison Kirkby, framkvæmdastjóri TDC, segir í samtali við DR að sú ákvörðun að slíta viðskiptasambandinu við Huawei sé eingöngu tekin á viðskiptalegum forsendum, en Huawei og TDC hafa verið í samstarfi óslitið síðustu tólf ár og hefur Huawei byggt upp 4G-kerfi TDC í Danmörku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka