Roundup aftur úrskurðað krabbameinsvaldur

Roundup plöntueyðirinn inniheldur glýfosat sem sumir vísindamenn telja geta verið …
Roundup plöntueyðirinn inniheldur glýfosat sem sumir vísindamenn telja geta verið krabbameinsvaldandi. AFP

Roundup-illgresiseyðirinn átti „verulegan þátt“ í að karlmaður í Kaliforníu fékk eitlakrabbamein. Kviðdómur í San Francisco komst að þessari niðurstöðu í dag og er þetta annað dómsmálið í Kaliforníuríki þar sem illgresiseyðirinn er úrskurðaður krabbameinsvaldur.

Reuters-fréttaveitan segir kviðdóminn hafa verið einróma í þeirri niðurstöðu sinni að Roundup hafi valdið Edwin Hardeman eitlakrabba, en Hardeman úðaði Roundup-illgresiseyðinum á landareign sína yfir um 25 ára tímabil.

Kviðdómurinn mun svo á morgun ákveða hvort, og þá hversu háar bætur, þýska fyrirtækinu Bayer, eiganda Monsanto sem framleiðir Roundup, verði gert að greiða Hardeman.

Reyna að grafa undan almannaáliti

Lögfræðingar Hardemans eru sagðir geta, í þessum öðrum fasa réttarhaldanna, lagt fram gögn sem sýni fram á tilraunir Monsanto til að hafa áhrif á vísindamenn, löggjafa og almenning, en þau gögn voru ekki heimiluð á þessu fyrsta stigi réttarhaldanna.

Hardeman sem er 70 ára, notaði Roundup reglulega á landareign sinni í Sonoma-sýslu í Kaliforníu á árabilinu 1980-2012. Segja lögfræðingar hans hann vera „ánægðan“ með úrskurð kviðdómsins, að því er BBC greinir frá.

„Nú getum við einbeitt okkur að sönnunum þess að Monsanto hefur ekki gripið til ábyrgra og hlutlægra aðgerða varðandi öryggi Roundup,“ hefur BBC eftir lögfræðingunum Aimee Wagstaff og Jennifer Moore.

„Þess í stað er ljóst af gjörðum Monsanto að fyrirtækinu er sama hvort vörur þess valda fólki krabbameini. Þeir beina þess í stað kröftum sínum í að hafa áhrif á almannaálit og grafa undan öllum þeim sem vekja lögmætar og raunverulegar áhyggjur af málinu,“ segir í yfirlýsingu þeirra Wagstaff og Moore.

Bayer vonsvikið með niðurstöðuna

Í yfirlýsingu sem forsvarsmenn Bayer sendu frá sér í dag er fyrirtækið sagt vera vonsvikið með niðurstöðu kviðdómsins. „Við höfum fulla trú á því að sannanirnar sem lagðar verða fram í öðrum fasa muni sýna að hegðun Monsanto hefur verið við hæfi og að fyrirtækið beri ekki ábyrgð á krabbameini Hardemans,“ segir í yfirlýsingunni.

Annar dómstóll í Kaliforníu úrskurðaði í ágúst á síðasta ári að Roundup-illgresiseyðirinn hefði valdið garðyrkjumanni nokkrum í ríkinu krabbameini. Voru honum dæmdar 289 milljónir dollara í bætur og tóku hlutabréf Bayers dýfu í kjölfarið.

Dómari lækkaði síðar bæturnar í 78 milljónir dollara, en Bayer hefur áfrýjað úrskurðinum.

11.200 málaferli gegn Monsanto vegna Roundup-illgresiseyðisins bíða þess nú að komast fyrir dómstóla og var mál Hardemans hugsað sem mögulega fordæmisgefandi varðandi skaðabótaupphæðir í rúmlega 760 málaferlum vegna Roundup fyrir alríkisdómstólnum í San Francisco.

Bayer hafnar því alfarið að Roundup, eða glýfosat, valdi krabbameini. Segir fyrirtækið áratuga rannsóknir og mat á reglugerðum sýna að illgresiseyðirinn sé öruggur mönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert