Hlutabréf þýska efna- og lyfjaframleiðslurisans Bayer tóku skarpa dýfu í kauphöllinni í Frankfurt er markaðir opnuðu í morgun, en Bayer á fyrirtækið Monsanto sem framleiðir Roundup-illgresiseyðinn. Efnið var í gær úrskurðað krabbameinsvaldur af kviðdómi í Kaliforníuríki Bandaríkjanna.
Hlutabréfin í Bayer féllu um 10,5% við opnun markaðarins í Frankfurt, en kviðdómurinn vestanhafs mun í dag ákvarða hvort og þá hversu háar bætur Bayer verður gert að greiða manni að nafni Edwin Hardeman, vegna krabbameins sem hann fékk.
Annar dómstóll í Kaliforníu úrskurðaði í ágúst á síðasta ári að Roundup-illgresiseyðirinn hefði valdið garðyrkjumanni nokkrum í ríkinu krabbameini. Voru honum dæmdar 289 milljónir dollara í bætur.
11.200 málaferli gegn Monsanto vegna Roundup-illgresiseyðisins bíða þess nú að komast fyrir dómstóla og var mál Hardemans hugsað sem mögulega fordæmisgefandi varðandi skaðabótaupphæðir í rúmlega 760 málaferlum vegna Roundup fyrir alríkisdómstólnum í San Francisco.