Radovan Karadžić, fyrrverandi leiðtogi Bosníu-Serba, hlaut í dag þyngdan dóm í Stríðglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna fyrir þjóðarmorð og stríðsglæpi og mun sæta lífstíðarfangelsi. Hann hlaut 40 ára dóm árið 2016, en kaus að áfrýja þeim dómi.
Áfrýjun hans var ekki tekin til greina hjá dómstólnum í Haag og verður Karadžić, sem meðal annars var dæmdur fyrir að bera ábyrgð á fjöldamorðunum í Srebrenica, í fangelsi til æviloka.
Dómarar við dómstólinn töldu að 40 ára dómurinn hefði ekki verið nægilega harður og endurspeglaði ekki þátt hans í voðaverkunum, samkvæmt frásögn AFP-fréttaveitunnar. Dómsformaðurinn Vagn Joensen sagði að dómarar sem kváðu upp upphaflega dóminn hefðu vanmetið þunga þeirrar ábyrgðar sem Karadžić bæri á verstu voðaverkum stríðsins á Balkanskaga, sem hefðu verið framin af „kerfisbundinni grimmd“.
Karadžić hefði þó líklega ávallt setið í fangelsi til æviloka þar sem „Bosníu-slátrarinn“, eins og hann er stundum kallaður, er orðinn 73 ára gamall. Hann fór huldu höfði í þrettán ár uns hann var handsamaður árið 2008 og dreginn fyrir Stríðsglæpadómstólinn í kjölfarið.
Ákæran yfir Karadžić var í ellefu liðum, en hann var dæmdur sekur um verstu grimmdarverk sem unnin hafa verið í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar.