Fjármagna múrinn með fé ætluðu börnum

Mexíkósk stúlka sést hér stinga andlitinu á milli járnbita í …
Mexíkósk stúlka sést hér stinga andlitinu á milli járnbita í landamæragirðingu sem skilur að Bandaríkin og Mexíkó. AFP

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur lagt til að fé í landamæramúrinn, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti vill reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, verði fundið með því að taka 1,2 milljarða dollara sem ætlaðir eru í skóla, leikskóla og aðrar sambærilegar byggingar fyrir börn hermanna.

Reuters fréttaveitan segir þetta vera að finna í lista sem varnarmálaráðuneytið sendi Bandaríkjaþingi á mánudag. Listinn geymir upplýsingar um byggingaframkvæmdir á vegum hersins að andvirði 12,8 milljarða dollara sem ráðuneytið segir hægt að fresta og nýta þess í stað féð í múrgerðina.

Um 10% heildarupphæðarinnar eru eyrnamerkt framkvæmdum við menntastofnanir á vegum hersins, m.a. skólabyggingum í herstöðvum Bandaríkjahers í Þýskalandi, Japan, Puerto Rico og í Bandaríkjunum.

Segir Reuters þessa tillögu ráðuneytisins koma á óvart í ljósi þess hve mikla áherslu forsetinn hefur lagt á fórnir fjölskyldna hermanna í ræðum sínum, en þetta sýni þó e.t.v. hversu mikla áherslu Hvíta húsið leggi á að múrinn verði að veruleika.

Verkefni fyrir um 800 milljónir dollara af þeim 1,2 milljarði sem ætlaður er til menntamála eru hins vegar ekki á dagskrá í náinni framtíð og sagði varnarmálaráðuneytið í útskýringum sínum til þingsins að það eitt að verkefni rati á listann þýði ekki endilega að það verði að veruleika. Því væri lítið mál að nota féð og endurgreiða síðar í menntaverkefnin.

Trump fór fyrr í þessum mánuði fram á það við þingið að fá 8,6 milljarða dollara af fjárlögum næsta árs í múrgerðina og sætti sú beiðni harðri gagnrýni frá Demókrötum. Forsetinn hefur þegar lýst yfir neyðarástandi til að fjármagna múrinn, sem gerir stjórn hans kleift að nýta til verksins fé sem ætlað var í uppbyggingaverkefni á vegum hersins.

Yfirmenn í hernum hafa hins vegar heitið því að ekki verði gengið á fé sem ætlað er í íbúðarhús hermanna, en nýleg rannsókn Reuters sýndi fram á að þúsundir fjölskyldna hermanna búa í heilsuspillandi húsnæði í herstöðvum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert