James Comey, fyrrverandi forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, kveðst vona að Donald Trump Bandaríkjaforseti verði ekki ákærður fyrir embættisbrot. Kveðst Comey frekar vilja að Trump bíði afhroð í forsetakosningunum 2020.
Trump rak Comey úr starfi sínu hjá FBI í maí 2017, sem varð til þess Robert Mueller var gerður að sérstökum saksóknara FBI á afskiptum rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016 og tengslum þeirra við starfsmenn framboðs Trumps. Tveggja ára rannsókn Muellers, sem er við það að ljúka, er nú beðið með mikilli eftirvæntingu.
Í grein sem Comey skrifaði og birt var í New York Times í dag segist hann vona að forsetinn verði ekki ákærður fyrir embættisbrot. „Með því á ég ekki við að þingið eigi ekki að hefja það ferli,“ skrifar Comey. Telji þingið sig hafa sannanir þess efnis. „Ég vona bara að það geri það ekki. Fari svo að þingið víki honum af forsetastóli þá mun verulegur hluti landsmanna telja um valdarán að ræða.“
Comey sparar þó ekki stóru orðin varðandi skoðun sína á leiðtogahæfni Trump og sagði hann vera „krónískan lygara sem ítrekað ráðist gegn lögum“ landsins.
„Ég hef hins vegar enga hugmynd um það hvort sérstakur saksóknari muni komast að þeirri niðurstöðu að Trump hafa vitandi vits tekið þátt í samsæri með Rússum í tengslum við kosningarnar 2016, né heldur hvort hann hafi hamlað framgang réttvísinnar með óheiðarleika í huga,“ skrifaði Comey. „Mér er líka sama. Ég vil bara að verkinu sé lokið, það sé gert vel og ítarlega.“
Trump hefur ítrekað gagnrýnt Mueller, m.a. á Twitter og á fimmtudag sendi framboð hans stuðningsmönnum forsetans beiðni um framlög í kosningasjóð þar sem enn og aftur er vísað í rannsókn Muellers sem „nornaveiðar“ sem „hafi verið skipulögð af demókrata lúserum og vinum þeirra í falsfréttunum (e. Fake News Media).“
Kvaðst Comey þess í stað óska þess þegar rannsókn Muellers verður gerð opinber að hún sýni Trump að í Bandaríkjunum sé dómskerfi sem virki vegna þess að til sé fólk sem trúi á það og sem geti hafið sig yfir sérhagsmuni og flokkstryggð.