Björgunaraðgerðir halda áfram í nótt

Flutningaskipið Hagland Captain er einnig vélarvana skammt frá Viking Sky.
Flutningaskipið Hagland Captain er einnig vélarvana skammt frá Viking Sky. AFP

Þrír farþeganna sem bjargað hefur verið úr farþegaskipinu Viking Sky sem er vélarvana undan ströndum Noregs eru taldir alvarlega slasaðir og hafa verið fluttir á sjúkrahús samkvæmt nýjustu fréttum NRK.

Tvö þeirra mest slösuðu eru kona á tíræðisaldri og maður á áttræðisaldri, en þau munu bæði hafa hlotið alvarleg beinbrot.

Áður hafði verið greint frá því að átta hefðu hlotið minniháttar áverka, en björgunaraðgerðir ganga erfiðlega vegna mikils veðurofsa á svæðinu. Öryggi farþeganna um borð hefur verið tryggt, auk þess sem skipið ætti ekki að færast úr stað.

Hægt gengur að koma farþegunum 1.300 frá borði vélarvana skipsins en nýjustu tölur herma að búið sé að koma 139 manns frá borði. Að sögn björgunaraðila halda aðgerðir áfram fram á nótt, en fimm þyrlur koma að björguninni. Hver um sig getur einungis flutt um fimmtán manns í einu.

Þá hefur þyrlanna einnig verið þörf í björgunaraðgerðir vegna flutningaskipsins Hagland Captain sem einnig er vélarvana skammt frá Viking Sky, sem hefur tafið björgun farþeganna enn frekar.

Samhliða björgunaraðgerðum er unnið að því að koma vélum skipsins í gagnið og takist það verður vonandi hægt að sigla þeim farþegum sem eftir verða örugglega í næstu höfn.

Hægt gengur að koma farþegunum 1.300 frá borði vélarvana skipsins …
Hægt gengur að koma farþegunum 1.300 frá borði vélarvana skipsins en nýjustu tölur herma að búið sé að koma 139 manns frá borði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert