Búið er að bjarga níu skipverjum á norsku flutningaskipi sem missti afl í vonsku veðri við Hustadvika fyrr í dag. Mennirnir urðu að stökkva í sjóinn svo það væri hægt að bjarga þeim, en tvær björgunarþyrlur náðu að hífa mennina um borð.
Að sögn norsku strandgæslunnar voru mennir blautir og kaldir en ómeiddir. Flogið var með mennina í land ásamt farþegum skemmtiferðaskips sem einnig lenti í vanda í stórsjó fyrr í dag við Noregsstrendur.
Fram kemur í norskum fjölmiðlum að aðstæður hafi verið með þeim hætti að það hafi verið öruggara fyrir mennina að stökkva í sjóinn og bíða eftir björgun í stað þess að vera áfram um borð í skipinu. Slík var ölduhæðin og hamagangurinn.
Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá aðstæður á vettvangi þar sem skemmtiferðaskipið, sem einnig lenti í vanda, var statt.
#vikingsky #hustadvika heavy sea pic.twitter.com/hoiAkYnVI9
— Ludviken (@Ludvikeen) March 23, 2019