Breska listasafnið The National Portrait Gallery hefur hafnað yfir milljón punda peningagjöf, um 160 milljónum króna, sem hefði skipt sköpum í rekstri þess. Ákvörðunin kemur þó fáum á óvart því fjölskyldan sem bauð safninu hinn veglega styrk er ásamt lyfjafyrirtæki sínu sökuð um að hafa beitt brögðum til að gera bandarísku þjóðina háða morfínskyldum verkjalyfjum og hagnast þannig gríðarlega.
Safnið er ein af mörgum menningarstofnunum á Bretlandseyjum sem fjölskyldan hefur boðist til að styrkja en vegna þrýstings frá hópi listamanna og annarra hefur stjórn safnsins nú ákveðið að segja nei takk. Sú sem leitt hefur þessa baráttu gegn fjölskyldunni er Nan Goldin, einn fremsti ljósmyndari heims. Og hún er sú sem fagnar ákvörðun listasafnsins hvað mest.
Goldin hvarf óvænt af sjónarsviðinu í yfir þrjú ár og er hún sneri aftur sagði hún átakanlega sögu sína. Hún hefði fengið ávísað verkjalyfi vegna sinaskeiðabólgu í Berlín árið 2014 og orðið háð lyfinu, þrátt fyrir að taka það nákvæmlega eins og henni var uppálagt að gera. Verandi fyrrverandi fíkill endaði neyslan hins vegar á því að hún var farin að mylja töflurnar niður og sjúga lyfið upp í nefið. Er hún flutti aftur til New York vildu læknar þar ekki ávísa henni lyfinu og þá fór hún að kaupa það á svörtum markaði.
Hún hefur nú verið edrú í ár. „Þeir gerðu það eina rétta,“ segir hún um ákvörðun stjórnar The National Portrait Gallery. „Ég vona að dómínóið sé farið af stað, það þarf að gerast.“ Sú ósk gæti ræst því Tate-safnið tók sömu ákvörðun í lok síðustu viku: Ekki verður tekið við meiri peningum frá þessari fjölskyldu.
Fleiri hafa fagnað ákvörðun listasafnanna og sagt hana sýna að það skipti máli hvaðan peningastyrkir til menningarstarfsemi koma. Draga verði línuna við fjölskyldu sem sökuð er um að bera ábyrgð á ópíóðafaraldrinum sem kostar daglega um 150 Bandaríkjamenn lífið.
Þessi fjölskylda ber ættarnafnið Sackler. Hún er moldrík. Peningarnir koma frá lyfjafyrirtækinu Purdue Pharma sem framleiðir verkjalyfið OxyContin. Lyfið, sem kom á markað á tíunda áratug síðustu aldar, reyndist sérlega ávanabindandi og er talið eiga stærstan þátt í þeim ópíóðafaraldri sem nú geisar í Bandaríkjunum og dregið hefur tugþúsundir til dauða. Milljónir eru háðar þessum lyfjum og heilbrigðisyfirvöld standa ráðþrota frammi fyrir vandanum.
Sackler-fjölskyldan hefur lengi verið mjög rausnarleg í framlögum sínum til lista-, menningar- og menntamála. Hún hefur styrkt fjölda menningarstofnana í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar sem og háskóla, s.s. Yale og Oxford. Að minnsta kosti einn þeirra, Háskólinn í Washington, hefur nú afmáð öll ummerki um verkefni styrkt af fjölskyldunni af heimasíðu sinni. Segir talsmaður skólans að ákveðið hafi verið að slíta fjárhagsleg tengsl við fjölskylduna eftir að Washington-ríki, þar sem ópíóðafaraldurinn er einna verstur, ákvað að höfða mál gegn Purdue Pharma. Það sama gerði New York-ríki.
Í dag eru yfir þúsund málsóknir sem tengjast lyfjafyrirtækinu í gangi víðs vegar um Bandaríkin. Rauði þráðurinn í þeim öllum er sá hinn sami: Að fyrirtækið hafi kveikt neistann að ópíóðafaraldrinum sem varð að minnsta kosti 42 þúsund manns að bana árið 2016. Dauðsföllin hafa haldið áfram að hlaðast upp síðan þá. Farið er fram á háar skaðabætur frá fyrirtækinu sem á að nýta til að sporna gegn faraldrinum.
Í byrjun árs fór svo umræðan að breytast, fyrirtækið sjálft, Purdue Pharma, var ekki aðeins fréttaefnið heldur stofnendur þess og aðaleigendur, Sackler-fjölskyldan. Það skýrist m.a. af því að í ljós kom að fjölskyldan, sem hafði áður lýst því yfir að hún hefði ekkert haft með markaðssetningu OxyContin að gera, hafði sagt ósatt. Hún hafði einmitt haft allar upplýsingar um skaðsemi lyfsins og hvatt sölumenn til að beita aðferðum sem ýttu undir að læknar ávísuðu sterkari og stærri skömmtum, allt til þess að hámarka hagnað fyrirtækisins. Einnig reyndi hún að koma að meðferð fyrir ópíóðafíkla – líka í þeim tilgangi að auka arðsemina.
Þetta er meðal gagna sem nú hafa verið lögð fram í tengslum við málsókn Massachusetts-ríkis gegn fjölskyldunni. Þau afhjúpa það sem saksóknarinn kallar „óseðjandi græðgi“ án þess að skeyta um þær þjáningar sem helsta framleiðsluvara fyrirtækisins, OxyContin, hefur valdið. „Átta manneskjur úr einni og sömu fjölskyldunni tóku ákvarðanir sem orsökuðu stóran hluta ópíóðafaraldursins,“ segir í ákæru saksóknarans.
Sackler-fjölskyldan er stór og ekki einsleitur hópur fólks sem hefur viljað hagnast á kvölum annarra. Í dag eru auðæfi hennar metin á um 14 milljarða dala og er hún því í hópi tuttugu ríkustu fjölskyldna Bandaríkjanna. Saga hennar þar í landi hefst fyrir síðari heimsstyrjöldina er Isaac Sackler og Sophie Greenberg, innflytjendur af gyðingaættum frá Austur-Evrópu, settust að í New York. Þau eignuðust þrjá syni: Arthur, Mortimer og Raymond. Tveir yngri bræðurnir keyptu Purdue Pharma á sjötta áratugnum en elsti bróðirinn, Arthur, átti einnig þriðjungshlut í því. Hann lést árið 1987, um áratug áður en OxyContin kom á markað, og var hlutur hans í fyrirtækinu þá seldur yngri bræðrunum. Þeir eru nú einnig látnir en afkomendur þeirra hafa margir hverjir setið í stjórn Purdue Pharma og verið leiðandi í stjórn þess, m.a. Richard Sackler, sonur Raymonds.
Afkomendur Arthurs hafa ekki hagnast á sölu OxyContin og eru margir hverjir áhrifafólk í ýmsum mannúðarmálum. Elsta dóttir hans, Elizabeth Sackler, hefur kallað hagnað frændfólks síns af lyfinu „siðferðilegan viðbjóð“. Jillian Sackler, ekkja Arthurs, hefur sagt í viðtölum að hann hefði ekki samþykkt þær leiðir sem farnar voru við söluna á OxyContin. Hún hefur enn fremur sagt það vera siðferðislega skyldu afkomenda Mortimers og Raymonds að „gera hið rétta og bæta fyrir öll þau mistök sem hafa verið gerð“ í tengslum við ópíóðafaraldurinn.
En aftur að málsókninni í Massachusetts.
Saksóknarinn segir að fólk úr Sackler-fjölskyldunni hafi þrýst á lækna að fleiri sjúklingum yrðu ávísaðir stærri skammtar af OxyContin og yfir lengri tíma. Í einum tölvupósti frá Richard Sackler, þá forstjóra Purdue Pharma, hvatti hann beinlínis sölumenn til að þrýsta á lækna að ávísa gríðarlega stórum skömmtum, vitandi að hærri skammtar settu sjúklinga í meiri hættu.
„Milljónir dollara voru ekki nóg, þau vildu milljarða,“ segir í ákærunni.
Robert Josephson, talsmaður Purdue, segir að málsóknin sé hluti af tilraunum til að taka fyrirtækið sérstaklega fyrir og gera það eitt ábyrgt fyrir ópíóðafaraldrinum. Stjórnarformaður Purdue segir Sackler-fjölskylduna mannvini mikla, það sýni saga þeirra. Hann segir málskjölin draga upp ranga mynd af henni, allt aðra en þá sem hann þekki og dái.
Aðrir vilja meina að manngæska hafi ekkert með örlæti fjölskyldunnar að gera. Styrkir hennar til háskóla og listasafna séu ekkert annað en „mannorðsþvottur“, líkt og Rob Reich, siðfræðiprófessor við Stanford-háskóla orðar það.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem nafn Sackler-fjölskyldunnar er dregið inn í umræðuna um ópíóðafaraldurinn. Hins vegar hafa nú í fyrsta sinn verið lögð fram gögn, m.a. tölvupóstar og innanhússkýrslur, sem eiga að sýna raunverulegan þátt hennar í markaðssetningu OxyContin.
Í ákærunni birtast margvíslegar ásakanir: Að Sackler-fjölskyldan hafi haldið lyfinu að eldra fólki án þess að upplýsa það um aukna áhættu með hækkandi aldri; að hún hafi stöðugt reynt að sannfæra lækna um að ávísa sterkari skömmtum, sérstaklega hinni mjög svo arðvænlegu 80 milligramma-töflu, og að hún hafi látið þrýsta á lækna sem voru sérlega „ávísanaglaðir“ að ávísa enn meira af OxyContin. Sérstaka athygli hefur svo vakið að Richard Sackler skellti skuldinni af fíkn í lyfin á sjúklingana sjálfa. Í tölvupósti sagði hann þá vera hina „kærulausu glæpamenn“.
Fyrrverandi starfsmenn Purdue-lyfjarisans hafa greint frá þeim aðferðum sem þeim var uppálagt að stunda við söluna á OxyContin. Þeim var m.a. sagt að herja á óreynda lækna og gera lítið úr hættunni á því að ánetjast lyfinu. Þeim var skipað að beina spjótum sínum að heimilislæknum frekar en sérfræðingum, s.s. bæklunarlæknum, sem hefðu meiri reynslu af sjúklingum með króníska verki og þekktu þar með hættuna af ópíóðalyfjum frekar. Ef læknar lýstu áhyggjum af fíknieinkennum sjúklinga sinna áttu sölumennirnir að hvetja þá til að ávísa sterkari skömmtum. Kenningin sem selja átti læknunum var sú að ef sjúklingur fengi „nægilega stóran“ skammt til að hemja verki sína myndu fíknieinkenni hverfa.
„Mér finnst eins og þeir hafi afvegaleitt almenning, þeir afvegaleiddu lækna og þeir afvegaleiddu sölumennina,“ hefur Financial Times eftir Carol Panara, sem var sölumaður hjá Purdue á árunum 2008-2013. Í nýlegri fréttaskýringu blaðsins er sýnt fram á að sölumenn hafi fengið gríðarlega háa bónusa að launum, hærri en gengur og gerist í lyfjabransanum. Þeim hafi einnig verið umbunað með lúxusferðum til Hawaii og til eyja Karíbahafsins. Panara lýsir því að stjórnendur fyrirtækisins hafi litið á dómssátt, sem gerð var við bandarísk stjórnvöld árið 2007 vegna villandi markaðssetningar, sem nornaveiðar. Sekt hafi verið greidd en blekkjandi aðferðum við sölu á lyfinu haldið áfram þótt öðru hafi opinberlega verið haldið fram.
Og fyrirtækið hélt áfram að vaxa hratt eftir að sáttin var í höfn og peningarnir fyrir OxyContin að flæða inn.
Andrew Kolodny, kennari við Brandeis-háskóla og sérfræðingur í fíknisjúkdómum, segir að reynslusögur fyrrverandi starfsmanna séu gríðarlega mikilvægar því þær sýni að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki breytt háttum sínum eftir dómssáttina. Fyrirtækið hafi frá upphafi kynnt lyfið sem öruggt og árangursríkt við verkjum. Sú markaðssetning hafi heilbrigðisyfirvöld sagt blekkjandi en henni var þó haldið áfram eftir dómssáttina.
Þetta gæti skipt sköpum í málssóknunum sem fram undan eru. Ástæðan er sú að með dómssáttinni fyrirgerðu bandarísk stjórnvöld rétti sínum til að sækja fyrirtækið til saka fyrir möguleg lögbrot sem framin hefðu verið fyrir árið 2007. Hafi fyrirtækið hins vegar haldið uppteknum hætti eftir þann tíma er allt annað uppi á teningnum.
Talsmenn Purdue segja fyrirtækið leggja mikið á sig til að gera sífellt betur. Það endurmennti stöðugt starfsfólk sitt og snemma árs í fyrra hafi svo verið ákveðið að hætta allri sérstakri kynningu á ópíóðalyfjum þess.
Það er hins vegar heldur seint í rassinn gripið. Skaðinn er skeður.
Eitt það athyglisverðasta sem fjölmiðlar hafa komist að í gagnaöflun sinni er að sölumenn Purdue voru ekki aðeins hvattir til að auka sölu á OxyContin heldur einnig sambærilegum lyfjum annarra lyfjafyrirtækja. „Þetta er eins og að biðja verslunarstjóra McDonald‘s að auka sölu hjá Burger King og KFC,“ hefur Financial Times eftir embættismanni bandaríska heilbrigðisráðuneytisins.
Ronny Gal, sérfræðingur í markaðsmálum, segir það hins vegar ekki fordæmalaust að lyfjaframleiðendur reyni að stækka markaðinn almennt samhliða því að selja meira af sínu eigin lyfi. „Sem leiðandi fyrirtæki á þessum markaði gat Purdue ekki stækkað kökuna án þess að fá lækna til að ávísa almennt meira af ópíóðalyfjum.“
Blaðamenn hafa einnig nýverið komist að öðru sem ekki hefur verið á allra vitorði: Sackler-fjölskyldan á annað lyfjafyrirtæki, Rhodes Pharma. Það var stofnað árið 2007, nokkrum mánuðum eftir dómssáttina við stjórnvöld, í nokkurs konar varúðarskyni, skyldi allt fara á versta veg hjá Purdue.
Þessi staðreynd gæti veikt þá vörn að ekki sé hægt að draga Sackler-fjölskylduna eina til ábyrgðar á ópíóðafaraldrinum. Financial Times upplýsti að Rhodes-lyfjafyrirtækið framleiðir mun meira magn af ópíóðalyfjum en Purdue en samanlagt hafi lyfjum þeirra verið ávísað 14,4 milljón sinnum í Bandaríkjunum árið 2016. Það jafngildir 6% markaðshlutdeild.
En hvers vegna er Sackler-fjölskyldan talin bera svona mikla ábyrgð á faraldrinum mannskæða og lyfið OxyContin álitið það sem kynti undir honum frekar en önnur svipuð verkjalyf?
Sackler-bræðurnir áttu áður breskt lyfjafyrirtæki og vísindamönnum þess tókst að þróa forðatöflu, þ.e. töflu sem losar lyf út í líkamann í tveimur fösum. Verkjalyf sem þá voru fyrir á markaðnum voru af öðrum toga, þ.e. virknin varði aðeins í nokkrar klukkustundir í senn. Þetta var því tímamótauppgötvun.
Þessi skömmtun í forðatöflunni var kölluð „contin“ og dró lyfið OxyContin því nafn sitt af henni. Lyfið kom á markað árið 1995. Í fyrstu var það aðeins ætlað til líknandi meðferðar dauðvona sjúklinga. Síðar fékk Purdue leyfi bandarísku lyfjastofnunarinnar til að selja lyfið öllum þeim sem þjáðust af miðlungs- eða miklum verkjum.
Við markaðssetningu lyfsins var áherslan lögð á þá löngu virkni sem lyfið hafði. Lítið var gert úr hættunni á því að ánetjast því og hún sögð minni en við töku ópíóðalyfja sem hefðu skemmri verkun. En hver tafla af OxyContin innihélt mikið magn hins ávanabindandi efnis sem gat auk þess valdið vímu. Fíklar sem komust yfir það muldu það niður, tóku það í nefið og sprautuðu sig með því og fengu þannig stóran skammt af efninu í einni andrá. Því var farið að kalla lyfið „heróín í töfluformi“.
Um áramótin 1999-2000 hófu bandarísk heilbrigðisyfirvöld að skoða starfsemi Purdue Pharma og þá fullyrðingu þess að OxyContin væri öruggara lyf en önnur sem innihéldu ópíóða. Lyfjastofnun Bandaríkjanna hafði ekki gefið fyrirtækinu leyfi til að markaðssetja lyfið með þeim hætti. Þetta leiddi til þess að árið 2003 lét Richard Sackler af starfi forstjóra fyrirtækisins og árið 2007 var dómssáttin gerð og Purdue Pharma gert að greiða 600 milljónir dala í sekt. Fyrirtækið varð að hætta að segja lyfið öruggara en önnur sambærileg lyf en að öðru leyti breyttist fátt – Purdue mátti enn markaðssetja lyfið gegn hvers kyns verkjum.
Áfram var því haldið og salan á lyfinu hélt áfram að aukast og náði hæstu hæðum árið 2010.
Önnur lyfjafyrirtæki, sem framleiddu samheitalyf með sömu virkni, fóru ekki í sambærilegar markaðsherferðir. Þau þurftu þess ekki, sölumenn Purdue sáu um að koma skilaboðunum rækilega til skila til lækna: Verkir væru mikil heilsuvá sem hægt væri að tækla með ópíóðalyfjum. Og þess vegna hafa spjótin beinst að Purdue frekar en öðrum þó að markaðshlutdeild þeirra sé ekki stórkostleg í dag.
En til að hægt sé að draga sjálfa fjölskylduna til ábyrgðar þarf að sanna að hún hafi verið með tögl og hagldir í allri stjórn fyrirtækisins, hafi „stjórnað sýningunni“ eins og David Crow, blaðamaður Financial Times, orðar það. Gögn sem komið hafa fram á síðustu vikum og mánuðum styðja þá kenningu og á því byggist m.a. málsókn Massachusetts-ríkis.
Fleiri áhugaverðir hlutir hafa verið dregnir fram í dagsljósið.
Rhodes Pharma, hið nýrra lyfjafyrirtæki Sackler-fjölskyldunnar, fékk á síðasta ári einkaleyfi á lyfi sem á að nota til að hjálpa fólki að ná stjórn á ópíóðafíkn, þ.e. til að venja fíkla af öðrum lyfjum sem fyrirtæki fjölskyldunnar selja, m.a. OxyContin. Sögusagnir eru um að fjölskyldan ætli sér að gefa þetta lyf sem nokkurs konar yfirbót, gefa það jafnvel sjúklingum á meðferðarstofnunum sem yrðu í eigu fjölskyldunnar. Crow segist heyra þennan orðróm úr ýmsum áttum, „en við vitum ekki hvort hann er sannur“.
Lyfið OxyContin er enn á markaði. Salan hefur dregist saman síðustu misseri, færri læknar ávísa þessu tiltekna ópíóðalyfi en áður. Önnur lyf og ódýrari eru nú fyrirferðarmeiri á markaðnum og sífellt bætast ný við. Lyfjastofnun Bandaríkjanna samþykkti 27 ný ópíóðalyf á árunum 2009-2015.
Ópíóðafaraldurinn geisar enn og virðist allt að því taumlaus. Nýjustu fréttir herma að Purdue Pharma hafi fengið vilyrði fyrir því að nýtt lyf sem fyrirtækið hyggst framleiða fái flýtimeðferð í umsagnar- og leyfisferli Lyfjastofnunar Bandaríkjanna.
Nýja lyfið á að gefa þeim sem hafa tekið inn of stóran skammt af ópíóðalyfjum, vera áhrifaríkara en naloxone sem nú er oftast notað. Það á þannig að bjarga mannslífum. „Klappstýrur“ ópíóðalyfjanna, eins og öldungadeildarþingmaðurinn Claire McCaskill lýsti eitt sinn fyrirtækinu, segjast þó ekki ætla að hagnast á nýja lyfinu heldur tryggja að það nýtist þeim sem mest þurfi á því að halda. Þeir sem mest þurfa á því að halda eru þeir sem eru háðir lyfjunum sem þetta sama fyrirtæki markaðssetti og sagði öruggara en önnur verkjalyf.
Greinin er byggð á umfjöllun Guardian hér, hér, hér og hér, greinaflokki Financial Times og fréttum BBC, Washington Post og fleiri fjölmiðla.