Norska skemmtiferðaskipið Viking Sky er komið í örugga höfn í Molde eftir að hafa siglt þangað fyrir eigin vélarafli á um 7 hnúta hraða.
Skipinu var fylgt í höfn af tveimur dráttarbátum og var mikill viðbúnaður vegna komu þess. Sigldi það inn í höfnina klukkan 15.15 að íslenskum tíma.
Af 1.373 farþegum höfðu um 463 verið fluttir í land með þyrlum, en um tíma var talin hætta á að skipið strandaði.
Að sögn lögreglunnar voru sautján af þeim sem bjargað var fluttir á sjúkrahús. Níræður farþegi og tveir sjötugir slösuðust alvarlega.
Í myndskeiði norska fréttamiðilsins NRK má sjá farþega skipsins veifa til þeirra sem bíða við höfnina. „Okkur tókst það!“ hrópuðu sumir þeirra og greinilegt að þeim var létt.