Búist er við að Viking Sky komi til hafnar í Molde í Noregi milli klukkan 16 og 17 í dag að staðartíma og siglir skipið fyrir eigin vélarafli á um 7 hnúta hraða, að því er segir á vef NRK. Fyrir skömmu þurfti skipið aðstoð dráttarbáta.
Stjórnvöld hafa sett algjört flugbann í kringum skipið í allt að fimm sjómílur.
Farþegar sem fluttir hafa verið í land með þyrlum hafa sagst mjög ánægðir með störf viðbragðsaðila. Sérstaklega hafa farþegar sagst þakklátir fyrir alla þá aðstoð sem þeir hafi fengið frá sjálfboðaliðum í landi.
Björgunaraðgerðir hafa gengið eins vel og hægt er miðað við þær krefjandi aðstæður sem hafa verið meðal annars vegna veðurs, að sögn Jon Georg Dale samgönguráðherra Noregs.
Erfiðleikar skipsins hófust síðdegis í gær þegar það varð vélarvana og stefndi í að skipið strandaði og munaði aðeins 100 metrum að það gerðist. Í nótt tókst að koma þremur af fimm aflvélum í gang og tók skipstjóri Viking Sky ákvörðun um að björgunarflugi yrði stöðvað, í það minnsta tímabundið.
„Þetta er það hrikalegasta sem ég hef þurft að bregðast við,“ segir Torstein Hagen, eigandi og stofnandi Viking Ocean Cruises, í samtali við VG. Fram kemur í umfjöllun blaðsins að hann hafi flogið, um leið og fréttist af vandræðum skipsins, í einkaþotu sinni til Molde og hefur verið að ræða við farþega skipsins í gær og í dag.
„Þetta er erfitt. […] En nú þegar lítur út fyrir að ætla að ganga sæmilega vel, verður að segja að við höfum verið heppin. Við erum að reyna að gera allt sem við getum,“ er haft eftir Hagen sem segir jafnframt að unnið sé að því að tryggja öllum farþegum flug heim.
Þá segist hann bæði ánægður með framlag viðbragðsaðila, sjálfboðaliða og ekki síst áhafnar Viking Sky.
Viking Ocean Cruises er með stærri farþegaflutningafyrirtækjum í Noregi og veltir um 25 milljörðum norskra króna á ári, jafnvirði 350 milljarða íslenskra króna, sem er sambærileg velta og flugfélagið Norwegian. Þá er Hagen meðal efnuðustu Norðmanna.
Af 1.373 farþegum hafa um 463 verið fluttir í land með þyrlum, en um tíma var talin hætta á að skipið strandaði. Enn eru um 1.000 einstaklingar um borð við erfiðar aðstæður þar sem innbú skipsins er illa farið og háar öldur hafa borið sjó inn í skipið.