Breska þingið samþykkti í kvöld, þvert á vilja ríkisstjórnarinnar, að greiða atkvæði um mögulegar leiðir til að finna lausn á fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. 329 þingmenn kusu að fara þessa leið en 302 voru á móti. Segja má því að þingið hafi tekið ráðin af Theresu May, forsætisráðherra Bretlands.
Þrír ráðherrar í ríkisstjórn May sögðu af sér til að kjósa með tillögunni, þeirra á meðal er Richard Harrington viðskiptaráðherra.
Atkvæðagreiðsla um tillögurnar sem þingmenn samþykktu að greiða atkvæði um í kvöld er fyrirhuguð á miðvikudag. Meðal tillagna sem greidd verða atkvæði um er „vægari útganga“ og önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit.
May reyndi í dag að fá meirihluta þingheims til að samþykkja að greiða atkvæði um tillögur ríkisstjórnarinnar á ýmsum úrlausnarmálum tengdum Brexit, en án árangurs. May sagði að með yfirtöku þingmanna á dagskrárvaldi neðri málstofu breska þingsins sé verið að setja „illa séð fordæmi“.
Fyrirhugað er að útganga Bretlands úr ESB (Brexit) verði á föstudaginn en May hefur óskað eftir því að fresta henni. ESB hefur samþykkt frestun til 12. apríl liggi útgöngusamningur ekki fyrir en 22. maí verði útgöngusamningur Mays samþykktur af breska þinginu í þriðju tilraun komi til hennar.
Hér má fylgjast með beinni textalýsingu BBC frá atburðarás kvöldsins á breska þinginu.