Fylkisstjórinn í Troms, Elisabeth Aspaker, segir að björgun farþega skemmtiferðaskipsins Viking Sky sýni þörfina á fleiri björgunarþyrlum í Norður-Noregi. Viking Sky lenti í vanda fyrir utan Møre og tóku fimm björgunarþyrlur þátt í að bjarga 500 af 1.373 farþegum frá borði.
Aspaker segir í samtali við norska ríkisútvarpið að hún þori ekki að hugsa þá hugsun til enda ef þetta hefði gerst fyrir utan strönd Norður-Noregs en mun fleiri þyrlur eru í Suður-Noregi en Norður-Noregi.
Skipið kom til hafnar í Molde síðdegis í gær en um tíma á laugardag var óttast að það myndi stranda. Mjög vont veður var á þessum slóðum og erfiðar aðstæður til björgunar.