Bráðabirgðaskýrslan kynnt í vikunni

Flugvélar Southwest Airlines af gerðinni Boeing 737 MAX 8. Flugfélagið …
Flugvélar Southwest Airlines af gerðinni Boeing 737 MAX 8. Flugfélagið hefur hafist handa við að flytja vélarnar í langtímageymslu. AFP

Bráðabirgðaskýrsla um flugslys vélar Ethiopian Airlines sem kostaði 157 manns lífið verður að öllum líkindum birt í þessari viku. Þá vinnur Boeing nú hörðum höndum að uppfærslu á hugbúnaði vélanna og þjálfunarleiðbeiningum.

Bandaríska flugfélagið Southwest Airlines tók hins vegar á laugardag að flytja nokkrar farþegaþotur af gerðinni Boeing 737 MAX 8 úr flota sínum í langtímageymslu í Mojave-eyðimörkinni.

Geymsluaðstaðan er í Victorville í suðurhluta Kaliforníu. Að því er flugfréttavefurinn Airlive greinir frá hefur Mojave-eyðimörkin lengi verið grafreitur og geymslustaður flugvéla, þar sem þurrt loftslag á þessum slóðum þykir henta vel fyrir langtímageymslu flugvéla.

Boeing upplýsir flugfélög um breytingar á hugbúnaði

Samgönguráðherra Eþíópíu greindi frá því í dag að til stæði að birta bráðabirgðaskýrsluna í vikunni, en ættingjar fórnarlambanna og flugiðnaðurinn allur bíður með óþreyju svara. Boeing hefur sætt mikilli gagnrýni eftir að vélin fórst, en hún var önnur vélin þessarar tegundar sem fórst á innan við fimm mánuðum.

Rannsóknin beinist einna helst að hugbúnaði MAX-vélanna og hefur Boeing m.a. verið gagnrýnt fyrir að telja flugmenn ekki þurfa þjálfun í nýja búnaðinum.

Reuters segir Boeing þessa vikuna vinna að því að upplýsa flugfélög um breytingarnar og að von sé á yfir 200 flugmönnum og sérfræðingum í höfuðstöðvar Boeing í Renton í Washington-ríki vegna þessa. Reuters segir uppfærslu hverrar vélar ekki taka nema um klukkutíma, en allar breytingar sem gerðar eru á hugbúnaðinum verða þó að hljóta samþykki yfirvalda víða um heim áður en hægt verður að uppfæra vélarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert