Þrjátíu ár fyrir þungunarrof

Alba Lorena Rodríguez þegar hún var látin laus úr Ilopango-fangelsinu …
Alba Lorena Rodríguez þegar hún var látin laus úr Ilopango-fangelsinu 7. mars, daginn fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna. AFP

Þrjár konur fögnuðu frelsi í El Salvador fyrr í mánuðum en þær höfðu allar verið dæmdar í 30 ára fangelsi fyrir brot á lögum landsins um þungunarrof. Ein þeirra varð þunguð eftir nauðgun árið 2009 og hafði hún afplánað tæp tíu ár þegar hún var látin laus.

Norska ríkisútvarpið fjallar um mál hennar í dag en undanfarið hafa fjölmiðlar víða um heim fjallað um stöðu kvennanna þriggja en þær voru látnar lausar 7. mars eftir að hæstiréttur landsins dæmdi þeim í vil.

Alba Lorena Rodríguez er 39 að aldri og tveggja barna móðir. Í fyrsta skipti í tæp tíu ár faðmaði hún dætur sínar 11 og 14 ára sem frjáls manneskja. Hún varð þunguð eftir nauðgun og missti fóstur í desember 2009 þegar hún var komin fimm mánuði á leið. Hún var handtekin á sjúkrahúsinu og ákærð fyrir manndráp. Sex mánuðum síðar var hún dæmd í 30 ára fangelsi. Þegar hún var látin laus hafði hún afplánað níu ár og tvo mánuði af refsingunni.

Alba Lorena Rodríguez segir sjálf að hún hafi misst fóstur, ekki farið í þungunarrof líkt og hún var dæmd fyrir. Hún hafi fengið skyndilega verki og síðan misst meðvitund. Hún hafi ekki rankað við sér fyrr en á sjúkrahúsinu og þá fengið að vita að hún hefði misst fóstur. 

Við réttarhöldin kom fram að áverkar hafi verið á höfuðkúpu barnsins en Rodríguez telur að það hafi gerst þegar leið yfir hana og hún datt. 

„Ég man ekkert. Ég missti fóstur. Ég var mjög veikburða á þessum tíma og hafði nánast ekkert borðað. Mamma dó þremur vikum fyrr og ég var mjög döpur,“ sagði Rodríguez í viðtali við Guardian fyrir nokkru.

Tengdamóðir hennar, en Rodríguez bjó ásamt dætrum sínum á heimili hennar á þessum tíma, segist ekki hafa vitað af þunguninni né heldur eiginmaður Ölbu sem var í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði. 

Rodríguez var nauðgað af félögum í Mara, sem er hluti af MS-13 glæpagenginu alræmda í El Salvador. „Þeir sögðu; kynmök eða við drepum börnin þín og foreldra. Þannig er lífið í fátækrahverfunum,“ segir Rodríguez. Hún bar ekki vitni um að henni hefði verið nauðgað við réttarhöldin á sínum tíma enda hefði það þýtt að fjölskylda hennar hefði verið tekin af lífi. 

Cinthia Marcela Rodriguez, Alba Lorena Rodriguez og Maria Orellana.
Cinthia Marcela Rodriguez, Alba Lorena Rodriguez og Maria Orellana. AFP

María del Tránsito Orellana og Cinthia Marcela Rodríguez voru einnig látnar lausar á sama tíma en María Orellana missti fóstur árið 2010 þegar hún starfaði sem húshjálp. Hún var handtekin eftir að hafa verið flutt á sjúkrahús í San Salvador og dæmd í 30 ára fangelsi. Þegar hún var látin laus fyrr í mánuðinum hafði hún afplánað í níu ár og þrjá daga. 

Cinthia Rodríguez vann við ræstingar í fataverksmiðju þegar þungunarrofið varð. Hún leitaði ekki læknisaðstoðar og var dæmd fyrir ólöglegt þungunarrof árið 2009. Þegar hún var látin laus hafði hún afplánað 11 ár, einn mánuð og þrjá daga af 30 ára dómi. 

„Ég er svo þakklát og glöð að endurheimta frelsi mitt að nýju. Ég hef beðið þessarar stundar svo lengi,“ sagði Cinthia Rodríguez við fréttamenn þegar hún kom út í frelsið. 

Að fara í þungunarrof er lögbrot í El Salvador og er refsingin tveggja til átta ára fangelsi. En ef þungunarrofið á sér stað eftir þrjá mánuði, til að mynda fósturlát eða þungunarrof af heilbrigðisástæðum, á konan yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsi sé hún fundin sek um manndráp. 

Að sögn forseta ACDATEE, sem eru samtök sem berjast fyrir réttindum kvenna, Morena Herrera, hafa 33 konur verið dæmdar í fangelsi í El Salvador á grundvelli þungunarrofslaga frá því lögin voru sett árið 2009. Um 20 þeirra eru í fangelsi um þessar mundir. „Við munum berjast áfram þangað til að engin kona er í fangelsi á grundvelli óréttlátra laga sem brjóta gegn réttindum þeirra,“ segir Herrera. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert