33 milljarða ópíóíðadómsátt

OxyCont­in.
OxyCont­in. Af vef Narconon

Bandaríska lyfjafyrirtækið Purdue Pharma, sem er í eigu Sackler-fjölskyldunnar, hefur gert 270 milljóna Bandaríkjadala, 33 milljarða króna, dómsátt við Oklahoma-ríki sem sakaði fyrirtækið um að bera ábyrgð á dauða þúsunda íbúa ríkisins. Hluti af samkomulaginu felur í sér að Purdue Pharma mun kosta stofnun miðstöðvar sem rannsakar fíkn en fyrirtækið framleiðir ópíóíðalyfið OxyCont­in.

Frétt BBC

Purdue er eitt nokkurra lyfjafyrirtækja sem sakað er um að hafa beitt vafasömum aðferðum við markaðssetningu ópíóíða. Þetta er fyrsta dómsáttin sem Purdue gerir en um tvö þúsund slíkar eru í gangi í tengslum við verkjalyfið OxyContin.

Í málsókn Oklahoma kemur fram að framleiðendur verkjalyfja eins og Purdue, Johnson & Johnson og Teva Pharmaceutical hafi beitt vafasömum aðferðum við að sannfæra lækna um að ávísa ópíóíðalyfjum. Meðal annars hafi verið þau logið hvað varðar hættuna á fíkn af völdum lyfjanna og gert of mikið úr kostum lyfjanna.

Að meðaltali deyja 130 Bandaríkjamenn á dag úr ofskömmtun ópíóíða, samkvæmt tölum frá bandarísku lýðheilsustofnuninni (Centers for Disease Control and Prevention). Árið 2017 létust 70.200 Bandaríkjamenn vegna ofskömmtunar. Þar af 68% af völdum ópíóíða - hvort heldur löglegum eða ólöglegum. 

Í tilkynningu frá Purdue kemur fram að dómsáttin við Oklahoma feli í sér sátt í öllum málum ríkisins gegn fyrirtækinu. Fjölskyldan sem tengist málsókn Oklahoma segir að samkomulagið þýði að þeir sem svo sannarlega þurfa á aðstoð að halda fái slíka aðstoð og þjónustu. 

Eignir Sackler-fjölskyldunnar eru metnar á 13 milljarða Bandaríkjadala, sem svarar til 1.578 milljarða íslenskra króna, samkvæmt Forbes-tímaritinu. „Við finnum innilega til með þeim sem fíkn hefur haft áhrif á,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldunni. 

Samkvæmt samkomulaginu mun Purdue leggja 102,5 milljónir Bandaríkjadala í stofnun miðstöðvar í fíkni- og meðferðarúrræðum við ríkisháskólann í Oklahoma (National Centre for Addiction Studies and Treatment).

Jafnframt ætlar Sackler-fjölskyldan persónulega að leggja miðstöðinni til 75 milljónir dala næstu fimm árin.

OxyContin.
OxyContin. AFP

Fjölskyldan hefur verið áberandi í kastljósi fjölmiðla að undanförnu vegna þeirra fjölmörgu dómsmála sem hafa verið höfðuð að undanförnu. Líkt og fjallað hefur verið um á mbl.is hefur fjölskyldan lagt háar fjárhæðir í alls konar menningartengd málefni sem og vísindastarf og menntun. Bæði breskar og bandarískar stofnanir hafa að undanförnu tilkynnt um að þær séu hættar að þiggja fé frá fjölskyldunni eftir að hafa þegið frá þeim háar fjárhæðir áratugum saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert