Fyrstu kólerutilfellin staðfest

Konur bíða í röð eftir neyðaraðstoð í kjölfar flóðanna miklu …
Konur bíða í röð eftir neyðaraðstoð í kjölfar flóðanna miklu í Mósambík. AFP

Umhverfisráðherra Mósambík hefur staðfest það sem allir óttuðust: Smitsjúkdómar eru farnir að breiðast út í landinu í kjölfar gríðarlegs fellibyls sem varð að minnsta kosti 468 að bana. Fyrstu tilfelli kóleru hafa nú verið staðfest, fimm talsins. Allir þeir sem sýkst hafa búa í borginni Beira og nágrenni eða á því svæði sem varð verst úti í fellibylnum Idai.

Fleiri ríki í sunnanverðri Afríku urðu illa úti er fellibylurinn gekk yfir 15. mars, m.a. Malaví og Simbabve, og telja Sameinuðu þjóðirnar að hann hafi haft áhrif á líf þriggja milljóna manna og að um hálf milljón hafi þurft að yfirgefa heimili sín. Að minnsta kosti 700 létust í löndunum þremur og óttast er að sú tala eigi eftir að hækka þar sem hundraða er enn saknað.

Óveðrinu fylgdu gríðarlegar rigningar og miðhluti Mósambík fór á kaf í vatn. Sömu sögu er að segja frá austurhluta Simbabve og Malaví. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, WFP, telur að um 3.125 ferkílómetrar lands hafi farið á kaf og um hálf milljón hektarar ræktarlands hafi spillst. 

Mark Lowcock, yfirmaður neyðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur hrint af stað söfnun til aðstoðar í Mósambík og segir 282 milljónir dollara þurfa til verksins næstu þrjá mánuði. Einnig þurfi að veita Simbabvemönnum og Malövum mikla aðstoð.

Lyf, matvæli og tjöld tóku að berast fórnarlömbum fellibylsins í gær en þá hafði flóðvatnið sjatnað og heildarmyndin af skaða óveðursins kom í ljós. 

Ónýtir maískólfar komu upp úr flóðvatninu víða.
Ónýtir maískólfar komu upp úr flóðvatninu víða. AFP

Íbúar í þorpinu Bejaga í Mósambík sögðust hafa fengið mjög litla neyðaraðstoð eða einn bolla af sojabaunum á mann. Það hafi verið of lítið og allir því orðnir hungraðir að sögn eins bóndans sem AFP-fréttastofan ræðir við. „Við erum að bíða [eftir aðstoð],“ sagði hann.

 Akrar bóndans eru að mestu ónýtir eftir flóðin. Hann leitaði í leðjunni að heilum maísstönglum til að borða. Þá heillegustu tók hann og þurrkaði en þeir reyndust allir rotnaðir eftir marga daga á kafi í vatni. „Við höfum ekkert að borða, við höfum næstum enga aðstoð fengið,“ sagði hann.

Reynt er að koma neyðaraðstoð til fólksins bæði úr lofti og af landi. Hjálparstofnanir og samtök óttast að matarskortur verði viðvarandi mánuðum saman þar sem mikið ræktarland eyðilagðist. Sameinuðu þjóðirnar telja að um alvarlegustu náttúruhamfarir á þessu svæði í marga áratugi sé að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert