Boeing hefur greint frá lagfæringum á umdeildu stýrikerfi sem tengt hefur verið við banvæn flugslys véla af gerðinni 737 MAX-8 í Eþíópíu og Indónesíu en alls fórust 346 í slysunum tveimur.
Í október 2018 fórst þota Lion Air með 189 um borð. Enginn komst lífs af. Ekkert frekar en 10. mars þegar farþegaþota Ethiopian Airlines fórst með 157 um borð.
Mikil líkindi eru með slysunum báðum, að sögn rannsakenda. Beinist athyglin að búnaði í flugkerfi þotunnar, svokölluðu MCAS-kerfi sem ætlað er að hindra að flugvélar ofrísi á flugi. Áður hefur verið greint frá því að flugmenn Lion Air höfðu líklega aðeins 40 sekúndur til að bregðast við bilun í kerfi vélarinnar.
Samkvæmt frétt BBC er enn óvíst hvenær flugvélunum, sem hafa verið kyrrsettar um allan heim, verði leyft að fljúga að nýju.
Hluti af uppfærslunni felst í því að sérstakt viðvörunarljós verður sett í allar flugvélar Boeing af tegundinni 737 MAX-8.
Áður gátu flugfélög valið hvort slík viðvörunarkerfi væru í vélum þeirra en hvorug vélanna sem hrapaði hafði slíkt kerfi. Boeing segir að í framtíðinni verði flugfélög ekki látin greiða aukalega fyrir þennan öryggisbúnað.
Lokauppfærsla verður kynnt bandarískum flugmálayfirvöldum í lok vikunnar. Þá á að vera tryggt að MCAS-kerfið fari ekki í gang vegna bilunar í skynjurum, heldur muni kerfið átta sig á því að um bilun sé að ræða.
Samkvæmt Boeing þarf að þjálfa flugmenn að nýju með breytingarnar í huga svo flugvélarnar verði metnar öruggar og einnig þarf að uppfæra kerfin um borð í vélunum.