Ástandið við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó er komið að þolmörkum og segir yfirmaður tolla- og landamæravörslu í ríkisstjórn Bandaríkjanna að það sé aðeins tímaspursmál hvenær harmleikur bresti á í einhverjum af landamæramiðstöðvunum.
Kevin McAleenan segir ástandið fordæmalaust, en í landamæramiðstöðinni í El Paso í Texas eru nú 13 þúsund innflytjendur í haldi. Aðallega er þar um að ræða fjölskyldur og börn á eigin vegum.
„Á mánudag og þriðjudag hófum við daginn með yfir 12.000 innflytjendur í haldi. Í morgun voru þeir orðnir 13.400. Há tala hjá okkur er 4.000 og þegar þeir eru orðnir 6.000 erum við komnir í vanda. 13.000 hafa aldrei sést áður.“