„Ég vel frið og fyrirgefningu“

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði kynþáttahatur ekki velkomið í landinu.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði kynþáttahatur ekki velkomið í landinu. AFP

„Kynþáttahatur fyrirfinnst, en það er ekki velkomið hér,“ sagði Jac­inda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, í tölu sinni á minningarathöfn sem haldin var um þá sem létust í hryðjuverkunum í Christchurch. „Við erum ekki ónæm fyrir veirum haturs, ótta eða annars slíks og höfum aldrei verið,“ sagði Adern og bætti svo við: „En við getum verið þjóðin sem uppgötvar lækninguna.“

Minningarathöfnin, sem var hald­in til heiðurs þeim 50 sem lét­ust í árás­inni 15. mars, var sýnd í beinni útsendingu í nýsjálenska sjónvarpinu. Yfir 20 þúsund manns mættu á at­höfn­ina sem var hald­in í Hagley-garðinum og var mikil öryggisgæsla á staðnum. 

AFP-fréttaveitan segir sorgarsöng maóría hafa ómað um Christchurch er Farid Ahmed, sem lifði árásina af sagðist hafa fyrirgefið árásarmanninum blóðbaðið sem rændi hann eiginkonunni. „Ég vel frið og fyrirgefningu,“ sagði Ahmed. Hvatti hann Nýsjálendinga, hverrar trúar sem þeir væru, að gera hið sama.

Um 20.000 manns tóku þátt í minningarathöfninni sem haldin var …
Um 20.000 manns tóku þátt í minningarathöfninni sem haldin var í Hagley-garðinum í Christchurch. AFP

„Fólk spyr mig: hvernig geturðu fyrirgefið einhverjum sem myrti ástkæra eiginkonu þína?“ sagði Ahmed sem var veiklulegur þar sem hann sat í hjólastól á sviðinu. Kona hans Husna lést í árásinni á moskuna er hún hljóp þangað inn til að reyna að bjarga fötluðum eiginmanni sínum.

„Ég á svo mörg svör við þessu [...] Allah segir að ef við fyrirgefum hvert öðru muni hann elska okkur.“

Líkti Ahmed því næst ólíkum menningarheimum við blóm og sagði þá „í sameiningu mynda fallegan garð“.

„Ég vil ekki þungt hjarta sem sýður eins og eldfjall og er fullt af reiði, ofsa og heift – það brennir sig sjálft og umhverfi sitt,“ sagði hann. „Ég vil hjarta fullt af ást, alúð og miskunn. Þetta hjarta vill ekki að fleiri líf tapist og að aðrir gangi í gegnum  þann sársauka sem ég hef upplifað. Þess vegna vel ég frið og fyrirgefningu.“

Farid Ahmed, sem lifði af árásina á moskuna en missti …
Farid Ahmed, sem lifði af árásina á moskuna en missti konu sína, sagðist velja frið og fyrirgefningu. AFP

Auk Ardern og Ahmeds komu á minningaathöfninni fram aðrir eftirlifendur árásarinnar, leiðtogar múslima og breski tónlistarmaðurinn Cat Stevens sem síðar tók upp nafnið Yusuf Islam.

Mikill fjöldi fylgdist með minningarathöfninni sem snart marga.
Mikill fjöldi fylgdist með minningarathöfninni sem snart marga. AFP
Tónilstarmaðurinn Yusuf Islam, áður Cat Stevens, flutti lag á minningarathöfninni.
Tónilstarmaðurinn Yusuf Islam, áður Cat Stevens, flutti lag á minningarathöfninni. AFP
Þátttakendur í minningarathöfninni.
Þátttakendur í minningarathöfninni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert