Hefja fjöldabólusetningar á hamfarasvæðum

Móðir gengur með barni sínu um neyðarbúðir sem settar voru …
Móðir gengur með barni sínu um neyðarbúðir sem settar voru upp í miðhluta Mósambík vegna fellibylsins. AFP

Að minnsta kosti 139 tilfelli kóleru hafa verið staðfest í Mósambík í kjölfar ofsaflóðanna sem þar urðu vegna fellibylsins sem gekk yfir landið um miðjan mánuðinn. Yfirvöld í landinu undirbúa nú fjöldabólusetningu til að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn breiðist frekar út.

Filipe Nyusi, forseti Mósambík, segir hamfarirnar þær verstu í sögu landsins. Að minnsta kosti 468 manns létust og tæplega tvær milljónir yrðu illa úti, misstu t.d. heimili sín.

Björgunaraðgerðir hafa staðið yfir í tvær vikur og tóku tæplega þúsund manns þátt í þeim. Leit að þeim sem saknað er hefur nú verið hætt formlega. 

Hefja á bólusetningar gegn kóleru í næstu viku og verða um 900 þúsund manns bólusettir í fyrstu atrennu.

Kólera breiðist helst út á svæðum þar vatn er mengað. Sjúkdómnum fylgir mikill og skyndilegur niðurgangur og getur hann dregið fólk til dauða.

Verið er að setja upp níu heilsugæslustöðvar í borginni Beira og nágrenni, þar sem ástandið er einna verst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert