Látnar lausar tímabundið

Loujain al-Hathloul.
Loujain al-Hathloul. Wikipedia

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa látið þrjár konur lausar úr haldi tímabundið en þær hafa setið í fangelsi án ákæru í tæpt ár fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum í landinu. Þeim var nýlega birt ákæra. 

Heimildir Reuters-fréttastofunnar herma að fleiri aðgerðasinnar verði látnir lausir úr haldi á sunnudag. Ísland leiddi hóp ríkja í gagn­rýni á stöðu mann­rétt­inda­mála í Sádi-Ar­ab­íu í mann­rétt­indaráði Sam­einuðu þjóðanna ný­verið. Er það í fyrsta skipti sem Sádi-Ar­ab­ía sæt­ir slíkri sam­stilltri gagn­rýni í ráðinu og mark­ar frum­kvæðið því tíma­mót.

Samkvæmt Amnesty International og mannréttindasamtökunum  ALQST eru konurnar sem voru látnar lausar þær Eman al-Nafjan, Aziza al-Yousef og Roqaya al-Mohareb. Tekið er fram í ríkisfjölmiðlum í Sádi-Arabíu að aðeins sé um tímabundna lausn að ræða. 

Konurnar þrjár eru meðal 11 kvenna sem hafa verið ákærðar fyrir tölvuglæpi og eiga yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisdóma.

Lynn Maalouf sem starfar hjá Amnesty International fagnar í samtali við BBC lausn þeirra en um leið gagnrýnir hún að aðeins sé um tímabundna lausn að ræða.

„Þær hafa verið læstar inni. Teknar frá ástvinum, pyntaðar og hótað fyrir það eitt að hafa með friðsamlegum hætti farið fram á jafnrétti kynjanna og sagt skoðun sína,“ segir hún í viðtali við BBC.

Fjórar af konunum 11 hafa verið pyntaðar í fangelsinu og bróðir einnar þeirra, Loujain al-Hathloul, sagði nýverið í grein sem birt var á vef CNN að systir hans hafi lýst því hvernig hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi, barin, hýdd og gefið raflost í kjallara sem hún lýsir sem „höll hryllingsins“. Meðal þess sem er notað gegn henni í ákærunni er að hún hafi sótt um starf hjá Sameinuðu þjóðunum.

Jafnframt er Samar Badawi, systir bloggarans Raif Badawi, í haldi. Hún fékk meðal annars bandarísku hugdirfskuverðlaunin árið 2012 (International Women of Courage Award) fyrir mannréttindabaráttu sína.  

Raif Badawi var dæmdur í tíu ára fangelsi og eitt þúsund vandarhögg árið 2014 fyrir að móðga íslam. Eiginkona hans, Ensaf Haidar, býr í Kanada og er með kanadískan ríkisborgararétt.

Agnes Callamard, mannréttindasérfræðingur Sameinuðu þjóðanna, hefur rannsakað morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi en hann var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbul í fyrra. Hún segir að réttarhöldin yfir 11 einstaklingum sem eru sakaðir um að bera ábyrgð á morðinu standist ekki alþjóðleg viðmið sem gefin eru við slík réttarhöld.

Frétt BBC

Frétt CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert