Grínistinn Volodimír Selenskí var efstur í fyrri umferð forsetakosninganna í Úkraínu sem fram fór í gær. Hann fékk 30% atkvæða og Petro Porosjenkó núverandi forseti 17%. Þar sem enginn frambjóðandi fékk 50% atkvæða munu Úkraínumenn kjósa á milli þeirra tveggja í síðari umferð kosninganna þann 21. apríl.
Það þykir nokkuð kómískt að niðurstaða fyrri umferðar kosninganna sé tilkynnt í dag, 1. apríl, þar sem margir töldu framboð hans grín í fyrstu.
Hann hefur enga reynslu í pólitík fyrir utan að hafa leikið forseta í sjónvarpsþáttum. Viðhorf kjósenda til hans breyttist þó er líða tók á kosningabaráttuna. Stuðningur við hann óx hratt, ekki síst vegna óþols almennings við ríkjandi spillingu og stöðnun í efnahagskerfinu. „Ég vil þakka þeim Úkraínumönnum sem kusu ekki bara í gríni,“ sagði Selenskí eftir að úrslitin voru ljós.
Selenskí er 41 árs og hefur byggt upp mikið veldi í skemmtanaiðnaðinum. Úkraínumenn hafa þegar séð hann í hlutverki forseta en það var í vinsælum Netflix-sjónvarpsþáttum, Servant of the People, en sýningar á þriðju þáttaröðinni eru um það bil að hefjast.
Stuðningsmenn hans segja hann hafa komið eins og ferskan andblæ inn í stjórnmálin á meðan andstæðingar hans segja stefnu hans veika og að land sem á í stríði eigi ekki að taka þá áhættu að kjósa óreyndan stjórnmann sem forseta.
Hann hefur verið sakaður um að vera „strengjabrúða“ hins umdeilda úkraínska auðmanns Ígors Kolomojskí, en því hefur hann staðfastlega neitað.
Selenskí er nú stundum líkt við Ronald Reagan, bandaríska leikarans sem náði alla leið í Hvíta húsið. Hann er ekki mikið fyrir að koma fram á kosningafundum og í viðtölum en notar þess í stað samfélagsmiðla af miklum móð til að koma skilaboðum sínum á framfæri.
Selenskí er tveggja barnafaðir frá iðnaðarborginni Krivi Rig í miðhluta Úkraínu. Hann er lögfræðimenntaður en kaus leiksviðið fram yfir réttarsalinn.
Í fréttaskýringarþætti um hann í janúar var hann sakaður um að hafa viðskiptatengsl til Rússlands sem er mjög viðkvæmt í þeirri stöðu sem uppi er í samskiptum landanna tveggja. Selenskí játaði í kjölfarið að eiga hlutabréf í kýpversku fyrirtæki sem væri í meirihluta eigu rússnesks félags. Hann lofaði að selja bréf sín.
Selenskí hefur heitið því að verði hann kosinn forseti ætli hann að halda friðarviðræðum sem kenndar eru við Minsk áfram. Viðræðurnar hafa það yfirlýsta markmið að binda enda á stríðið við stuðningsmenn Rússa í austurhluta Úkraínu. Sumir gagnrýnendur hans segjast hins vegar efast um að hann hafi það sem þurfi til að standa uppi í hárinu á Vladimír Pútín Rússlandsforseta.
Margt bendir þó til þess að Selenskí sé full alvara og ætli sér ekki að taka embættinu, verði hann kosinn til þess, af léttúð. Þannig hefur hann raðað í kringum sig mörgum reynslumiklum pólitískum ráðgjöfum, m.a. fyrrverandi fjármálaráðherra Úkraínu, fyrrverandi viðskiptaráðherra landsins, fyrrverandi þingmanni sem þekktur er fyrir að berjast gegn spillingu og fólki sem er áberandi í viðskiptalífinu.
Selenskí segist ætla að halda áfram að efla tengsl Úkraínu við Vesturlönd og þar með framfylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í tíð Porosjenkó, núverandi forseta.
Petro Porosjenkó var kosinn forseti Úkraínu árið 2014. Hann var áður kaupsýslumaður sem hafði efnast á sölu súkkulaðis. Strax við upphaf kjörtímabílsins hóf hann að efla tengsl stjórnvalda við Vesturlönd, sem var það sem kjósendur hans vildu, en gagnrýnendur hans segja honum hafa mistekist að uppræta spillingu og bæta lífskjör almennings.