Einn á móti hertri vopnalöggjöf

David Seymour, eini þingmaður hægriflokksins ACT á nýsjálenska þinginu, var …
David Seymour, eini þingmaður hægriflokksins ACT á nýsjálenska þinginu, var jafnframt sá eini sem greiddi atkvæði gegn frumvarpi um herta vopnalöggjöf í landinu. Ljósmynd/Twitter

Aðeins einn þingmaður nýsjálenska þingsins greiddi atkvæði gegn nýrri hertri vopnalöggjöf sem var lögð fram á þinginu í dag.

119 þingmenn af 120 greiddu atkvæði með frumvarpinu, sem felur í sér að hálf­sjálf­virk­ir riffl­ar og hríðskotariffl­ar verða bannaðir í landinu.

Jac­inda Ardern, forsætisráðherra landsins, kynnti breytingar á vopnalöggjöfinni fyrir um tíu dögum í kjöl­far hryðju­verk­anna í Christchurch 15. mars þegar 50 lét­ust í skotárás­um víga­manns í tveim­ur mosk­um í borg­inni.

„Allt of margir í þessu landi hafa greiðan aðgang að hættulegum skotvopnum og almenningi stafar ógn af því,“ sagði Stuart Nash, ráðherra löggæslumála, þegar hann greiddi atkvæði með frumvarpinu. „Við verðum að bregðast hratt við.“

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, ásamt Stuart Nash, ráðherra löggæslumála.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, ásamt Stuart Nash, ráðherra löggæslumála. AFP

Ætlaði að tefja málsmeðferðina en mætti of seint

David Seymour, eini þingmaður hægriflokksins ACT, greiddi atkvæði gegn frumvarpinu og sagði hann löggjöfina einkennast af fljótfærni. „Það er mikilvægt að við höldum í hefðir um allsgáða og rótgróna lagasetningu öllum stundum, en sérstaklega á þessari stundu,“ segir í tilkynningu frá Seymour.

Seymore hafði hugsað sér að tefja málsmeðferð frumvarpsins í þinginu en missti af tækifærinu þar sem hann mætti of seint í þingsal eftir að hafa útskýrt áætlun sína fyrir fjölmiðlum.

Frumvarpið á eftir að fara í gegnum frekari umræðu auk tveggja atkvæðagreiðslna áður en það verður að lögum og á Ardern von á því að nýju lög­in taki gildi 11. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert