Sjaríalög tóku gildi í ríkinu Brunei í dag, sem m.a. kveða á um að grýta megi til bana þá sem gerast sekir um samkynhneigð. Nýju lögin, sem þykja ströng útgáfa af sjaríalögunum, kveða einnig á um að þeim sem gerist sekir um þjófnað skuli refsað með aflimun.
Brunei er soldánaveldi á eyjunni Borneó og undir stjórn soldánsins alvalda Hassanal Bolkiah. Ríkið hefur auðgast á útflutningi á bæði olíu og gasi.
Í ávarpi sínu í dag er lögin voru innleidd kallaði soldáninn eftir „öflugri“ íslamskri fræðslu. „Ég vil að kenningar íslams verði sterkari í þessu landi,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir soldáninum sem ekki minntist þó á nýju lögin í ræðu sinni.
Innleiðing laganna hefur sætt fordæmingu alþjóðasamfélagsins, en samkynhneigð var fyrir ólögleg í Brunei og varðaði allt að 10 ára fangelsi.
Samkvæmt nýju lögunum geta einstaklingar verið dæmdir sekir fyrir að hafa stundað kynlíf með einstaklingi af sama kyni ef þeir játa brot sitt, eða ef fjögur vitni eru að atburðinum.
Hefur samfélag samkynhneigðra í Brunei sagt nýju lögin áfall og að þar óttist menn „miðaldapyntingar“.
„Maður vaknar upp og áttar sig á því að nágrannar manns, fjölskyldan eða jafnvel litla ljúfa konan sem selur rækjukökur í götuvagni sínum telur mann ekki mennskan og að það sé í lagi að grýta mann,“ hefur BBC eftir samkynhneigðum manni í Brunei sem ekki vildi láta nafns síns getið.
Soldáninn er stjórnandi Brunei Investment Agency-fjárfestingafélagsins, sem á níu lúxushótel víða um heim, m.a. Dorchester-hótelið í London og Beverly Hills-hótelið í Los Angeles.
Nú í vikunni tilkynntu breska poppgoðið Elton John og Hollywood-stjarnan George Clooney að þeir ætli að sniðganga hótel í eigu soldánaveldisins Brúnei. Mótmæla þeir þar með nýrri löggjöf í Brúnei sem lætur samkynhneigð og hjúskaparbrot varða dauðarefsingu.
„Í hvert skipti sem við gistum á, höldum fundi á eða snæðum á einhverju af þessum níu hótelum, setjum við fé beint í vasa mannanna sem kjósa að grýta og húðstrýkja sína eigin borgara til dauða fyrir að vera samkynhneigðir eða sakaðir um hjúskaparbrot,“ sagði Clooney.