Árásarmanninum gert að sæta geðrannsókn

Dómari á Nýja-Sjálandi hefur fyrirskipað að manni sem sakaður er um hryðju­verk í tveim­ur mosk­um í ný­sjá­lensku borg­inni Christchurch í síðasta mánuði, þar sem hann varð 50 manns að bana og særði tugi til viðbótar, verði gert að sæta geðrannsókn.

Réttarsalurinn í dag var troðinn af fólki, m.a. ættingjum sumra fórnarlamba hans, en sjálfur birtist maðurinn sem er Ástrali á þrítugsaldri einungis í gegnum sjónvarpsskjá frá öryggisfangelsinu í Auckland þar sem hann er í varðhaldi. Segir AFP-fréttaveitan hann hafa setið hreyfingarlausan og án þess að tjá sig, en ekki var farið fram á að hann lýsti yfir sekt eða sakleysi á þessum tímapunkti. 

BBC segir dómarann Cameron Mander hafa úrskurðað að sérfræðingar verði fengnir til að úrskurða hvort árásarmaðurinn sé andlega vanheill, eða hvort hann teljist ábyrgur gjörða sinna og hægt að rétta yfir honum.

Teljist hann sakhæfur verður hann ákærður fyr­ir 50 morð og 39 morðtilraunir, sem og fyrir hryðju­verk.

Hann dvelur nú í ein­angr­un í fangelsinu og er stöðugt fylgst með hon­um bæði beint af hálfu fanga­varða og eins með ör­ygg­is­mynda­vél­um. Hann hef­ur ekki aðgang að sjón­varpi, út­varpi eða dag­blöðum og all­ar heim­sókn­ir eru bannaðar. 

„Mig langaði til að vita hvað hann hefði að segja, hverjar tilfinningar hans væru og hvort viðbrögð hans væru slæm eða góð,“ hefur AFP eftir Yama Nabi, sem missti föður sinn í árásinni. Nabi var meðal þeirra fjölmörgu ættingja fórnarlambanna sem mættu í dómssal í von um að sjá árásarmanninum bregða fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert