Ógna lífi 19 milljóna barna

Á leið til skóla í Kurigram-héraði í Norður-Bangladess.
Á leið til skóla í Kurigram-héraði í Norður-Bangladess. UNICEF/Akash

Flóð, fellibylir og aðrar náttúruhamfarir sem tengjast loftslagsbreytingum ógna lífi og framtíð 19 milljóna barna í Bangladess, að því er segir í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

UNICEF segir að þrátt fyrir aðdáunarverða seiglu íbúa Bangladess þurfi að gera meira til þess að draga úr hættunni sem blasi við börnum landsins af völdum loftslagsbreytinga.  

Loftslagsbreytingar auka enn á þá ógn sem steðjar að fjölskyldum í fátækustu hlutum Bangladess og gerir foreldrum ómögulegt að veita börnum sínum aðgang að öruggu húsnæði, fæði, heilsugæslu og menntun, segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, en hún heimsótti Bangladess í síðasta mánuði.

AFP

Í Bangladess og um allan heim eru miklar líkur á að afturkippur komi í þá framþróun sem náðst hefur í mörgum ríkjum til að koma börnum til bjargar.

Skýrslan, A Gathering Storm: Climate change clouds the future of children in Bangladesh, kom út í dag.

Í skýrslunni er sagt frá móður sem heldur í örvæntingu um mynd af syni sínum sem drukknaði í flóðunum í Kurigram-héraði í norðurhluta Bangladess árið 2017. Á eyju í Brahmaputra-fljóti sést drengur feta þröngan stíg við árbakkana á leið í skóla. Í fátkærahverfi höfuðborgarinnar, Dhaka, er lifibrauð Mohamed Chotol, 13 ára, að safna plastflöskum.

Maroof Hussein er 11 ára gamall. Fjölskylda hans missti allt …
Maroof Hussein er 11 ára gamall. Fjölskylda hans missti allt í flóðunum 2017. UNICEF/Lawson Tancred

Víða um land hafa börn verið fórnarlömb náttúruhamfara sem rekja má til loftslagsbreytinga í heiminum. Flóð, fellibylir og svo margt annað en drukknun er helsta dánarorsök barna í Bangladess. Árið 2016 drukknuðu tæplega 15 þúsund börn 17 ára og yngri þar í landi.

Maroof Hussein er 11 ára gamall. Hann var 9 ára þegar flóð herjuðu á þorpið hans í júní 2017 með þeim afleiðingum að  bæði heimili hans og skóli fóru á flot. 

„Ég fór að sofa en vaknaði við að vatnið flæddi inn. Það var skelfilegt,“ segir Maroof en hann og fjölskylda hans sluppu heil á húfi en ekki besti vinur hans, Iqbal. Hann sópaðist á haf út með flóðbylgjunni. Iqbal var 8 ára gamall. 

Vísindamenn hafa sýnt fram á verulega hlýnun sjávar í Bengalflóa. Alþjóðabankinn bendir á að árið 2050 megi búast við, það er ef hækkun sjávar heldur áfram á sama tíma og stormar verða algengari séu líkur á að 4.800 ferkílómetrar lands, sem svarar 3,2% af þurru landi í Bangladess í dag, fari undir sjó. Ef hækkun sjávar verður enn meiri má búast við því að 8% landsins fari undir sjó.

AFP

Eins langt og elstu menn muna hafa fjölskyldurnar 200 sem búa í þorpinu Fulchari í Gaibanda-héraði, lifað á uppskerunni sem vex á bökkum fljóta í nágrenni þorpsins. En nú er öllu lífi ógnað í þorpinu vegna loftslagsbreytinga. Til að mynda hefur öll hrísgrjónauppskeran brugðist þar sem rigningin, sem ætti samkvæmt öllu að koma, lætur á sér standa. 

Á monsúntímabilinu rignir miklu meira en áður var og breytast fljótin í ógnvald sem enginn ræður við.

Mufiz el Din missti hús fjölskyldunnar og nánst alla hrísgrjónauppskeruna í flóðum 2007. Síðan þá hafa hann og eiginkona hans og börnin þeirra fimm flutt átta sinnum. Reyna að finna skjól fyrir ólgandi fljótum. Auk þess að hafa misst allt þá hafa þessir sífelldu flutningar rænt börnin möguleika á menntun. 

„Ég neyddist að taka tvo elstu syni mína úr skólanum því ég hafði ekki ráð á því að hafa þá þar,“ segir Mufiz el Din. Þegar starfsmenn UNICEF ræddu við hann nýverið voru yngstu dæturnar í skóla (6 og 9 ára) en hann vissi ekki hve lengi það gengi upp. Það var í valdi Brahmputra-fljótsins að ákvarða framtíð fjölskyldunnar.

Loftslagsbreytingar ógna lífi 19 milljóna barna í Bangladess.
Loftslagsbreytingar ógna lífi 19 milljóna barna í Bangladess. UNICEF

Loftslagsbreytingar hafa víðtæk áhrif á samfélagið allt. Þar á meðal auka þær líkur á barnabrúðkaupum. Nazma Khatum er 14 ára gömul og hún býr með móður sinni, þremur systrum og bróður á eyjunni Kablagunj í norðurhluta Bangladess. Nazma gengur í skóla en hana dreymir um að starfa við hjúkrun. En þar sem faðir hennar er látinn er það móðir hennar sem þarf ein að framfleyta fjölskyldunni. Á sama tíma hafa loftslagsbreytingar spillt uppskerunni í héraðinu þannig að útlit er fyrir að móðir hennar missi vinnuna. 

Þar sem það er svo erfitt fyrir mömmu að framfleyta okkur þá veit ég aldrei hvort hún á næga peninga til þess að greiða fyrir menntun mína, segir Nazma. Ég myndi vilja fara í háskóla í Dhaka en ég er ekki viss um að móðir mín hafi ráð á því.

Frá Bangladess.
Frá Bangladess. UNICEC

Loftslagsbreytingar hafa valdið því að margar fjölskyldur sjá ekki önnur úrræði í stöðunni en að gefa dætur sínar í hjónaband og fækka þar með þeim munnum sem þarf að brauðfæða. 

Eins eru fjölmörg börn neydd til þess að sjá fyrir sér og fara út á vinnumarkaðinn. Á góðum degi nær Mohamed Chotol, 13 ára, að safna 15 kg af plasti í poka sem hann er með á öxlinni. Fyrir plastið fær hann 300 taka sem svarar til 418 króna. 

„Ég læt foreldra mína frá peninga,“ segir Mohamed en viðurkennir að stundum taki hann hluta fjárhæðinnar í að kaupa sér eitthvað að borða. „Ég vildi auðvitað miklu frekar vera í skóla en ég hata alls ekki starfið. Ég er með vinum mínum og síðdegis spilum við krikket eftir að vinnudeginum lýkur.“

Yfirmaður hans segir að það séu átta til níu aðrir kaupsýslumenn sem séu með börn í vinnu við að safna plastumbúðum til endurvinnslu. Hann segist sjálfur hafa neyðst til þess að flytja búferlaflutningum vegna uppskerubrests en hann var áður bóndi í 20 ár. 

Ríkisstjórn Bangladess gaf út aðgerðaáætlun vegna loftslagsbreytinga árið 2009 þar sem farið er yfir þarfir fátækra og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu.

Síðan þá hafa stjórnvöld reynt að gera sitt besta til þess að undirbúa þau svæði sem eru í viðkvæmri stöðu. Um 12 milljónir barna búa á þeim svæðum sem eru í mestri hættu, það er þar sem mest hætta er á að ár flæði yfir bakka sína. Að minnsta kosti 480 heilsugæslustöðvar sópuðust til að mynda á brott í flóðunum 2017.

Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF.
Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF. AFP

Um 4,5 milljónir barna búa á strandsvæðum þar sem fellibylir herja oft á. Þar á meðal hálf milljón barna úr hópi flóttafólks rohingja. Flóttafólkið býr í viðkvæmum bambus- og plasthreysum. 

Þrjár milljónir barna búa síðan á þurrkasvæðum inni í miðju landi. Samkvæmt skýrslu UNICEF eru loftslagsbreytingar lykilþáttur í að reka fátæka á vergang þar sem fólk reynir að skapa sér framtíð á nýjum svæðum. Margir þeirra fara til höfuðborgarinnar og annarra stórborga þar sem börn eiga á hættu að vera seld í ánauð eða þvinguð í hjónabönd. Samkvæmt opinberum gögnum eru um sex milljónir nú þegar á vergangi vegna loftslagsbreytinga og ef ekkert verður að gert á sú tala eftir að tvöfaldast fyrir árið 2050. 

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert