Forsvarsmenn bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing segja að allt verði gert til þess að tryggja flugöryggi 737 Max en ítreka að þoturnar séu í grundvallaratriðum öruggar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem gefin var út aðeins nokkrum klukkutímum eftir að yfirvöld í Eþíópíu greindu frá því að flugmenn 737 Max 8-þotu Ethiopian Airlines hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til þess að njá stjórn á þotunni.
Í bráðabirgðaskýrslu flugslyssins kemur fram að verklagsferlum frá Boeing hafi verið fylgt en kerfið hafi ítrekað tekið yfir þegar flugmennirnir reyndu að handstýra flugvélinni. Allir um borð fórust, alls 157 manns. Í október fórst þota Lion Air, sem einnig var af 737 Max-gerð, og létust allir um borð, alls 189 manns.
Forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg, segir að forsvarsmenn fyrirtækisins beri fullt traust til öryggismála 737 Max og að þær breytingar sem verið væri að gera á öryggishugbúnaði þeirra myndi gera tegundina eina þá öruggustu í heiminum.
Muilenburg staðfestir aftur á móti að villa hafi komið upp í MCAS-kerfinu í báðum flugslysunum en það tengist hæðarstýri vélarinnar.
Á vefnum Allt um flug segir að MCAS-kerfið hafi verið þróað við hönnunina á Boeing 737 MAX. „MCAS-kerfinu var komið fyrir til að leiðrétta loftflæðilegar breytingar sem urðu á Boeing 737 MAX-þotunni þar sem hreyflar hennar eru bæði þyngri og staðsettir framar á vængnum samanborið við Boeing 737NG sem hefur áhrif á massamiðju vélarinnar og er ætlað að forða flugvélinni frá ofrisi við aukið áfallshorn en áfallshorn eykst á öllum flugvélum til að mynda í flugtaki.
MCAS-kerfið fer í gang þegar sjálfsstýring vélarinnar er ekki virk og vængbörð eru uppi og reiðir MCAS-kerfið sig á upplýsingar sem koma frá áfallshornsskynjurum. Ef skynjararnir greina að nef vélarinnar sé farið að vísa óeðlilega mikið upp á við þá senda þeir boð til MCAS-kerfisins um að leiðrétta með því að ýta hæðarstýrinu niður sem dregur úr halla vélarinnar um þverásinn,“ segir í frétt á vefnum Allt um flug.
Í Washington Post í gær kom fram að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum hafi fyrirskipað Boeing að laga galla í flugstjórnarbúnaði þotunnar en sá búnaður tengist ekki MCAS. Vegna þessa hafi tímaáætlun Boeing um hvenær vélarnar megi hefja sig á loft að nýju verið frestað.
Samkvæmt tilkynningu Boeing er aðeins um smávægilegan galla að ræða og lausn hans sé þegar fundin.