Þúsundir mótmælenda söfnuðust í dag saman framan við forsetahöllina í Súdan og kröfðust þess að forseti landsins, Omar al-Bashir, segði af sér. Segir Reuters fréttaveitan þetta vera stærstu mótmæli í landinu frá því fyrst kom til mótmæla gegn ríkisstjórn landsins í desember á síðasta ári.
Öryggissveitir lögreglu beittu táragasi gegn mótmælendum og sættu nokkrir þeirra einnig barsmíðum og voru handteknir þegar lögregla reyndi að stöðva mótmælendur sem streymdu í átt að höllinni úr þremur mismunandi áttum. Varnarmálaráðuneytið og höfuðstöðvar öryggislögreglu eru til húsakynna í sömu byggingu og forsetahöllin.
Reuters segir þúsundir mótmælenda hafa veifað súdanska fánanum og skiltum þar sem krafist er afsagnar Bashirs og tókst hluta hópsins að komast að hliði forsetahallarinnar án þess að verðir næðu að stöðva hann.
„Það er fólk hér svo langt sem augað eigir,“ sagði einn þátttakenda við Reuters og kvað ekki fleiri hafa tekið þátt frá því mótmælin hófust 19. desember.