Að vera grýttur til bana

Sultan Omar Ali Saifuddien-moskan í Bandar Seri Begawan.
Sultan Omar Ali Saifuddien-moskan í Bandar Seri Begawan. AFP

„Þú vaknar og áttar þig á því að nágrannar þínir, fjölskylda og jafnvel indæla gamla konan sem selur fiskikökurnar við þjóðveginn álítur þig ekki lengur mannlegan eða finnst allt í lagi að þú sért grýttur,“ segir samkynhneigður maður á Brúnei sem rætt er við á BBC. Hann vill ekki koma fram undir nafni af ótta við refsinguna sem bíður hans. Að vera grýttur til bana.

Trans-konan Zoella Zayce neyddist til þess að flýja heimaland sitt, Brúnei, í fyrra þegar stjórnvöld fóru að herða refsingar í ríkinu. Hún telur fullvíst að fólk innan LGBT-samfélagsins í þessu örríki á eyjunni Borneó í Suðaustur-Asíu, fylgi í hennar fótspor. Að öðrum kosti bíður þeirra ekkert annað en harðar refsingar eða dauðadómur. 

Konur hlýða á soldáninn flytja ávarp.
Konur hlýða á soldáninn flytja ávarp. AFP

Saríalög tóku gildi í soldánsdæminu í vikunni sem leið og vakti ákvörðun soldánsins, Hassanal Bolkiah, sem hefur ríkt í yfir 50 ár og er einnig forsætisráðherra ríkisins, mikla reiði meðal fólks víða um heim. Aftur á móti virðist sem meirihluti íbúa landsins sé sáttur við herta löggjöf. Löggjöf sem felur í sér að hommar eru grýttir til dauða. Dauðadómur bíður þeirra sem halda fram hjá, nauðga, ræna eða móðga spámanninn Múhameð.

Lesbíum er refsað með 40 höggum með staf og/eða allt að 10 ára fangelsi. Fólk er þá bundið niður og slegið með metra löngum staf sem er um 1,27 cm á breidd. Stafahögg sem refsing hefur verið við lýði í Brúnei lengi en börn geta jafnvel verið dæmd til slíkra refsinga, þ.e. drengir undir 16 ára, að því er fram kom í fréttaskýringu Magnúsar Heimis Jónassonar í Morgunblaðinu á fimmtudag.

Mannréttindasamtök sem og Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt nýja löggjöf landsins en líkt og soldáninn bendir á í yfirlýsingu fyrir viku er Brúnei sjálfstætt ríki og ræður því lögum sínum sjálft. Hann segir að saría feli í sér margt annað en að herða refsingar því þeim er ætlað að mennta, viðra og vernda lögmætan rétt allra einstaklinga, samfélaga, trúarbragða og kynþátta. 

Soldánahöllin í Brúnei.
Soldánahöllin í Brúnei. Skjáskot af YouTube

Eignir metnar á 2.388 milljarða króna

Hassanal Bolkiah tók við embætti árið 1967 af föður sínum og hefur því ríkt næstlengst allra þjóðhöfðingja heims. Hann er einnig einn ríkasti þjóðhöfðinginn en Forbes metur eignir hans á 20 milljarða Bandaríkjadala, 2.388 milljarða króna, en matið er síðan árið 2008 og er talið að það hafi ekki breyst mikið á síðustu árum. 

Soldánshöllin er engin smásmíði enda stærsta höll heims, 2.152.782 fermetra gólfflötur með 1.788 herbergjum og 257 baðherbergjum. Talið er að byggingin hafi kostað um 350 milljónir dala sem svarar til 42 milljarða króna. 

Hassanal Bolkiah hefur alltaf þótt gaman að eyða peningum og er talið að hann eigi að minnsta kosti sjö þúsund bíla og hafi eytt hátt í milljarði dala í bíla í gegnum tíðina. Má þar nefna yfir sex hundruð Rolls-Royce og yfir 450 Ferrari-bifreiðar. Hann á 34 Koenigseggs-bíla og er það stærsta safn slíkra bifreiða í heiminum. 

Hassanal Bolkiah er soldán í Brúnei.
Hassanal Bolkiah er soldán í Brúnei. AFP

Bróðir frekur til fjárins

Eitthvað þótti Hassanal Bolkiah bróðir hans frekur til fjárins en Jefri prins var fjármálaráðherra Brúnei frá 1986 til 1998. Hann var einnig stjórnarformaður fjárfestingarsjóðs Brúnei (BIA) og annaðist flestar fjárfestingar ríkisins erlendis. Í kjölfar fjármálakreppunnar í Asíu árið 1997 lét soldáninn endurskoða bókhald BIA og leiddi rannsóknin í ljós að Jefri hefði dregið sér fé árum saman. Var hann ákærður fyrir að hafa stolið 14,8 milljörðum Bandaríkjadala úr sjóðum ríkisins. Jefri neitaði sök en árið 2000 gerði hann dómssátt um að afhenda allar persónulegar eignir sínar til ríkisins gegn því að fallið yrði frá ákæru. Eftir lagadeilur og áfrýjanir fram og til baka var það niðurstaðan árið 2007 að samkomulagið væri framfylgjanlegt. 

Kvennabúr og klámfengnar styttur

Ástarlíf bræðranna hefur ítrekað komist í kastljós fjölmiðla en eftir því sem næst verður komist hefur soldáninn kvænst í þrígang og á hann fimm syni og sjö dætur með eiginkonunum þremur. Hann er enn kvæntur þeirri fyrstu, Saleha drottningu, en önnur eiginkonan var flugfreyja hjá þjóðarflugfélaginu Royal Brunei Airlines. Hann skildi við hana árið 2003 og svipti hana öllum konungstitlum.

Árið 2005 gekk hann í hjónaband með Azrinaz Mazhar Hakim sem er 33 árum yngri en Bolkiah. Þau skildu árið 2010 og líkt og með eiginkonu númer tvö svipti soldáninn hana öllum titlum og eyðslufé. Jefri á þrjár eiginkonur en hefur skilið við tvær aðrar og á 18 börn. 

Jefri hefur ratað mun oftar í fréttir fjölmiðla í gegnum tíðina en soldáninn. Má þar nefna kvennabúr Jefri, klósettapappírshaldara úr gulli og klámfengnar styttur sem voru á eignum hans í Bandaríkjunum. 

Bel-Air-hótelið í Los Angeles.
Bel-Air-hótelið í Los Angeles. AFP

AFP-fréttastofan tók saman helstu atriði saría-laga í liðinni viku í tengslum við nýja refsistefnu Brúnei. Þar kemur fram að saría-lög séu harðlínustefna sem byggi á Kóraninum og Hadith, sem er annað rit með margvíslegum ummælum sem sögð eru höfð eftir Múhameð spámanni en oft umdeilt hvort þau séu það í reynd.

Saría er aðferð við að setja lög en þau eru ekki Guðs orð eins og Kóraninn heldur eru lögin sett af mönnum. Menn skoða Kóraninn, skoða Hadith og aðstæður í samfélaginu þar sem á að nota lögin og nota svo heilbrigða skynsemi. Þetta merkir að þú myndir ekki höggva höndina af þjófum eða hálshöggva nokkurn einasta mann ef íslenskir múslimar settu saríalög á Íslandi,“ segir Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, í viðtali við Sunnudagsmoggann árið 2014. Það sama ár voru saría-lög sett að hluta í Brúnei og í kjölfarið tilkynnti kaupsýslumaðurinn Richard Branson að hann og allir starfsmenn Virgin-veldisins muni sniðganga Dorchester Collection-hótelkeðjuna.

Dorchester-keðjan er í eigu soldánins af Brúnei og undir Dorchester-keðjuna heyra tíu hótel í hæsta gæðaflokki hér og þar um heiminn. Má þar nefna Dorchester-hótelið sögufræga í London, The Beverly Hills Hotel í Los Angeles, Plaza Athénée í París og Le Richemond í Genf. Branson fylgdi þar fordæmi stjarna á borð við Ellen DeGeneres, Stephen Fry og Sharon Osbourne.

Rolls-Royce fyrir framan Hotel Eden.
Rolls-Royce fyrir framan Hotel Eden. AFP

Auga fyrir auga 

Þrátt fyrir að mörg múslimaríki noti saría-lög að hluta í landslögum eru afar fá sem beita þeim á jafn harkalegan hátt og Brúnei hefur nú boðað. Ríkin sem framfylgja öfgastefnu saría eru til að mynda Sádi-Arabía en saría er grundvöllur undir allri löggjöf konungdæmisins. Þar er samkynhneigð ekki bara ólögleg heldur einnig dauðadómur og er líkamlegum refsingum framfylgt á opinberum vettvangi, svo sem hýðingum. 

Í Sádi-Arabíu gildir í raun enn það fornkveðna: auga fyrir auga, tönn fyrir tönn í persónulegum málum og leit soldáninn mjög til Sádi-Arabíu þegar löggjöfin var hert í Brúnei árið 2014.

Auk ríkjanna tveggja eru saría-lög í gildi að hluta í Afganistan, í Aceh-ríki í Indónesíu, Súdan og Pakistan.

Í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum eru lögin sögð miskunnarlaus, ómannúðleg og niðurlægjandi. Um leið væri þetta alvarlegt skref aftur á bak í mannréttindabaráttu.

George Clooney og Elton John.
George Clooney og Elton John. AFP

Matthew Woolfe, stofnandi mannréttindasamtakanna The Brunei Project, segir í samtali við BBC, að slæmt efnahagsástand Brúnei gæti verið ein ástæða þess að saría-lögunum var hraðað í gegn.

„Ein kenningin er að ríkisstjórnin sé að herða tök sín í ljósi hnignandi efnahags sem gæti leitt til uppreisnar meðal íbúa,“ segir Woolfe. Þá gæti Brúnei einnig verið að koma á saría-lögum til að reyna að laða að sér fjárfestingar frá öðrum múslimaríkjum eða til að auka fjölda múslimskra ferðamanna.

Meurice er 5 stjörnu hótel í París sem er í …
Meurice er 5 stjörnu hótel í París sem er í eigu Dorchester Collection. AFP

Verg landsframleiðsla á íbúa er meðal þess hæsta sem gerist í heiminum vegna mikilla olíuauðlinda. En þegar heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði fyrir nokkrum árum hafði það mikil áhrif á efnahag ríkisins. Stjórnvöld segja að þau ætli að auka fjölbreytni hagkerfisins en sérfræðingar hafa varað við því að ekki sé nóg að gert. Því sé hætta á að ekki verði hægt að tryggja ungu fólki það atvinnuöryggi sem ríkt hefur í ríkinu undanfarna áratugi. 

Hvetja stjórnvöld til að taka afstöðu gegn ofbeldi

Leikarinn og leikstjórinn George Clooney er einn þeirra sem hafa stigið fram og gagnrýnt Brúnei harðlega fyrir nýja refsilöggjöf.

Í opnu bréfi Clooneys, sem birtist í fjölmiðlum vestanhafs, segir hann að í hvert skipti sem einhver gistir á hótelum í eigu soldánsins fari þeir peningar beint í vasann á mönnum sem ákveða að grýta eigin íbúa til dauða fyrir að vera samkynhneigðir eða þá eru sakaðir um framhjáhald. Breski tónlistarmaðurinn Elton John skrifaði á Twitter að hann hefði árum saman sniðgengið þessi hótel og hann muni halda því áfram.

Samtökin ‘78 taka skýra afstöðu gegn hvers kyns ofbeldi, glæpavæðingu og mismunun sem snúa að jaðarsettum hópum þar á meðal vegna kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, þjóðernis, uppruna, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, fötlunar eða annarra mismununarbreyta.

Hotel Principe di Savoia er í eigu Dorchester Collection.
Hotel Principe di Savoia er í eigu Dorchester Collection. AFP

Samtökin ‘78 hvetja stjórnvöld að beita sér fyrir málinu á alþjóðlegum vettvangi og taka skýra afstöðu gegn mannréttindabrotum stjórnvalda í Brúnei. Ísland á nú sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sem er kjörinn vettvangur til að sýna það í verki að hvers kyns mannréttindabrot eru ekki liðin.

Samtökin ‘78 vilja einnig hvetja öll til að sniðganga þau hótel sem eru í eigu soldánsins í Brúnei en þau eru:

  • Hotel Bel-Air í Los Angeles, Bandaríkjunum
  • The Beverly Hills Hotel, Beverly Hills, Bandaríkjunum
  • The Dorchester, London, Bretlandi
  • 45 Park Lane, London, Bretlandi
  • Coworth Park, Ascot, Bretlandi
  • Le Meurice, París, Frakklandi
  • Hotel Plaza Athenee, París, Frakklandi
  • Hotel Eden, Róm, Ítalíu
  • Hotel Principe di Savoia, Mílanó, Ítalíu

Herferð á samfélagsmiðlum um að hunsa hótel í eigu keðjunnar setti síður hótelanna á hliðina fyrir helgi og hefur Twitter-síðum flestra þeirra verið lokað. Meðal þeirra sem hafa dreift herferðinni eru stjörnur eins og Dua Lipa, Luke Evans, Billie Jean King og Jamie Lee Curtis. 

Fjölmörg fyrirtæki eru hætt viðskiptum við félög tengd Brúnei og er meðal annars búið að taka niður allar auglýsingar frá ferðamannaráði Brúnei í lestarkerfi London.

Stærsti banki Þýskalands, Deutsch Bank, tilkynnti á fimmtudag að bankinn hefði tekið Dorchester-hótelin af lista yfir þau hótel sem starfsmenn bankans mættu gista á í ferðalögum á vegum bankans. 

Segir í tilkynningu bankans að með nýjum lögum brjóti Brúnei gegn grundvallar mannréttindum og stjórnendur bankans telji það hlutverk sitt að grípa til aðgerða gegn slíkum brotum. Dorchester Collection er hótelkeðja í eigu fjárfestingarsjóðs Brúnei. 

Líkt og árið 2014 hefur Virgin Airlines slitið samkomulagi um ferðalög starfsmanna ríkisflugfélags Brunei með vélum Virgin. Ríkisstjórn Bretlands segir lagabreytinguna vera skref aftur á bak og með þessu sé Brúnei að brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum sem ríkið hefur staðfest um að virða mannréttindi og frelsi einstaklingsins. Brúnei var áður undir yfirráðum Breta en fékk sjálfstæði í ársbyrjun 1984. 

Istana Nurul Iman - soldánahöllin í Brúnei.
Istana Nurul Iman - soldánahöllin í Brúnei. Wikipedia

Eftir setningu laganna í síðustu viku ákváðu bresk stjórnvöld að gefa út nýjar leiðbeiningar fyrir ferðamenn og gefa út viðvörun til breskra þegna sem ætla að leggja leið sína til ríkisins. 

Zulhelmi bin Mohamad, trans-kona sem flúði Brúnei í fyrra og hefur sótt um alþjóðlega vernd í Kanada, segir að nýju lögin eigi eftir að gera líf LGBT-fólks enn verra en það var og nógu slæmt hafi það verið fyrir. Fólk reyni að fara leynt með stöðu sína og flýi áður en það kemst upp um það. 

Brúnei er afar lítið land og íbúarnir aðeins 400 þúsund talsins. Enn á eftir að koma í ljós hvernig nýju lögunum verður framfylgt enda ekki hægt, samkvæmt nýjum lögum, að grýta fólk til bana nema óyggjandi sannanir liggi fyrir um sekt viðkomandi. Að viðkomandi annaðhvort játi eða fjögur vitni beri að viðkomandi hafi framið það brot sem hann er ákærður fyrir.

Þrátt fyrir að dauðarefsingar hafi verið heimilaðar í Brúnei í langan tíma þá hefur enginn verið tekinn þar af lífi árum saman. Síðasti dauðadómurinn var kveðinn þar upp árið 2017. 

CNN

BBC

Guardian

New York Times

Business Insider

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert